Skírnir - 01.01.1969, Side 115
SKÍRNIR
DANTE Á ÍSLENZKU
109
Tratto t’ho qui con ingegno e con arte;
Lo tuo piacere omai prende per duce.
(„Ég hef leitt þig hingað með fróðleik mínum og list, lát nú löngun
þína vísa þér leið.“) Guðmundur segir:
Og leiddur minni list og mínum fræðum
svo langt þig bar, - nú skalt þig sjálfur leiða. (bls. 96)
Munurinn á „löngun þinni“ í frumtexta Dantes og „þú sjálfur“ í
þýðingu Guðmundar er ekki smár. Tilgangurinn með ferð Dantes
upp fjallið var að hreinsa vilja hans svo, að löngun hans væri
treystandi til að leiða hann áfram. Orð Virgils marka merkilegan
áfanga á leið Dantes. Þýðing Guðmundar ber í senn vott um lítils-
virðingu á bókstafnum og skilningsleysi á guðfræðilegan þanka-
gang Dantes og samtíðar hans. Hann hefði betur treyst þeim þýð-
ingum, sem hann hafði við höndina: Molbech segir „din lyst“,
Carlyle-Wicksteed „thy pleasure“, og Sayers „pleasure“.
Þýðingin á Purgatorio XXX er svo ónákvæm, að það tekur því
ekki að tína til dæmi. Guðmundur segir sjálfur, að þessi kviða sé
„lausast þýdd“, sem er sannarlega ekki ofmælt. Hún er ekki ósvipuð
Imitations („Ljóðastælingum") Roberts Lowells, sem eru í rauninni
frumort kvæði, enda þótt þau séu byggð á erlendum ljóðum. Mun-
urinn er bara sá, að Lowell er ekki að gera tilraun til að þýða, enda
notar hann ekki það orð, og lesendum hans er það fullljóst. En í þýð-
ingu sinni á Purgatorio XXX og stórum hluta af Paradiso XXXIII,
virðist Guðmundur reika um hlutlaust belti, sem liggur einhvers
staðar á milli þýðingar og eftirlíkingar.
Eftir að hafa heyrt spádóm Cacciaguidas um útlegð sína, segir
Dante í Paradiso XVII, 109-11:
Per che di provedenza é buon ch’io m’armi,
Si che se loco m’é tolto piú caro,
Io non perdessi gli altri per miei carmi.
(„Því er mér bezt að brynjast forsjálni, svo að þótt sá staður,
sem mér er kærastur, verði frá mér tekinn, þá glati ég ekki öðrum
söngvanna minna vegna.“) Guðmundur segir:
Því vildi eg gjarna gyrðast andans sverði,
þó glatist horg mín kær og vinir falli,
svo harpan aldrei af mér tekin verði. (bls. 126)