Skírnir - 01.01.1969, Page 177
SKIRNIR
ÞINGVALLAFUNDUR 1888
171
tveir fyrir hvern hrepp, og sóttu þeir allir kjörfund. Samkvæmt kjör-
skrám voru kjósendur til Alþingis í Norður-Þingeyjarsýslu 146, en
89 eða 60,96% tóku þátt í kosningum kjörmanna.
Á kjörfundinum voru tekin til umræðu og ályktunar sömu málin
sem samþykktir voru um gerðar á kjörfundi Suður-Þingeyinga. Sam-
þykktir beggja þessara kjörfunda voru eins að efni til.
Fundurinn samþykkti, að fulltrúa kjördæmisins skyldu greiddar
150 krónur fyrir ferðina á Þingvöll.
Fyrir Norður-Múlasýslu voru kosnir á kjörmannafundi að Foss-
völlum 28. júlí Sveinn Brynjólfsson, gestgjafi á Vopnafirði, með 12
atkvæðum og Jón Jónsson, hóndi á Sleðbrjót, með 10 atkvæðum.
Varafulltrúi var kosinn Vigfús borgari Sigfússon á Vopnafirði, „er
fékk flest atkvæði næst hinum“, segir í kj örfundarskýrslunni.
Kjörmenn höfðu verið kosnir í níu af ellefu hreppum sýslunnar.
Fimmtán kjörmenn sóttu fundinn, en í kosningaskýrslu Þingvalla-
fundartíðinda segir, að í hreppunum hafi alls verið kosnir 17 kjör-
menn. Sennilega hafa átta hreppar kosið tvo kjörmenn hver, þó að
úr tveim þeirra sækti aðeins annar fulltrúinn kjörfund, en í einum
hreppanna níu, Loðmundarfjarðarhreppi, var aðeins einn kjörmað-
ur kosinn. í Borgarfjarðarhreppi og Seyðisfjarðarhreppi munu ekki
hafa verið kosnir kjörmenn. í kjörgögn frá Þingvallafundinum 1888
vantar alveg kjörskrár úr Norður-Múlasýslu, en í sýslusafni hennar í
Þjóðskjalasafni eru kjörskrár um kjósendur til Alþingis þar í sýslu
1888-89, og samkvæmt þeim hafa atkvæðisbærir menn í þeim hrepp-
um, sem kusu kjörmenn, verið 243, en í sýslunni allri 315. Sam-
kvæmt skýrslunni í Þingvallafundartíðindum voru þeir, sem tóku
þátt í kosningum kjörmanna 184. Það verða 76,13% kjósenda í þeim
hreppum, sem kusu kjörmenn, en 58,67% af kjósendafjölda sýsl-
unnar allrar.
Á kjörfundinum urðu nokkurar umræður um stjórnarskrármálið,
„og var það samhuga álit fundarins,“ segir í fundarskýrslunni, „að
halda stjórnarskrárbreytingunni fram í frumvarpsformi.“ Einnig
„lögðu fundarmenn það samhuga til,“ segir í skýrslunni, að á Þing-
vallafundi skyldu fulltrúar kjördæmisins hreyfa ýmsum öðrum vel-
ferðarmálum landsins, svo sem um atvinnuvegi, skóla, samgöngur,
ásetning osfrv.