Skírnir - 01.01.1969, Blaðsíða 236
THE POETIC EDDA, VOLUME I, HEROIC POEMS
Edited with Translation, Introduction and Commentary
by Ursula Dronke
Oxford University Press 1969
Þótt edduútgáfur séu orðnar talsvert margar, hafa þessi fornu kvæði ekki enn
komið út í heild ásamt rækilegum skýringum á ensku. Svo búið mun þó ekki
standa öllu lengur, því að nú er í Oxford hafin myndarleg útgáfa þeirra í
fjórum bindum, og hefur hið fyrsta þegar borizt hingað.
Í stuttum formála gerir útgefandi grein fyrir verkinu. Tilgangur þess er að
treysta grundvöll háskólanáms í norrænum og germönskum skáldskap fornum
og einkum höfð í huga þörf stúdenta í fornensku á efni til samanburðar við
leifar hinna fornensku hetjukvæða. Keppt er einkum að dýpri skilningi á orð-
færi og allri gerð kvæðanna svo og þróun þeirra.
Efnisskipan fyrsta bindis er í aðalatriðum þessi: Fyrst fjallar útgefandi um
handrit og meðferð texta, en síðan koma eftirtalin fjögur hetjukvæði í þessari
röð: Atlakviða, Atlamál, Guðrúnarhvöt, Hamðismál. Frá hverju kvæði er
gengið þannig, að fyrst er textinn prentaður ásamt þýðingu á ensku, þar sem
reynt er að halda stíl frumkvæðis. Óvíða kemur stuðlun þó fram. Stafsetning
er samræmd með svipuðum hætti og tíðkazt hefur í útgáfum eddukvæða fyrir
háskóla. I næsta kafla er fjallað um kvæðið, einkum byggingu þess, Ijóðstíl og
list, sögulegan bakgrunn og uppruna. Loks eru rækilegar textaskýringar í sér-
stökum kafla. Bókin er xvi-|-251 bls. að viðbættum tveim myndasíðum.
I framhaldi útgáfunnar er ráðgert að skipa kvæðum með þessum hætti: I 2.
bindi verða Völuspá, Baldurs draumar, Lokasenna, Skírnismál, Rígsþula og
Völundarkviða (sem hér fylgir þá goðakvæðum), en í 3. bindi koma Helga-
kviðurnar og Sigurðarkvæðin. Loks verða þau goðakvæði, sem ekki voru áður
talin, í 4. bindi auk Grottasöngs.
Auðsætt er, að hér er ekki fylgt niðurskipan Konungsbókar eins og títt hefur
verið í heildarútgáfum eddukvæða. Mun ætlun útgefanda sú, að með þessari
skipan verði fremur unnt að varpa ljósi á skáldskapareinkenni kvæðanna og
ýmislega afstöðu. Kvæðin fjögur í fyrsta bindi eru vel valin saman með slík
sjónarmið í huga. Atlakviða og Atlamál fjalla um sama efni. Atlakviða er forn-
leg mjög, enda tímasetur útgefandi hana í lok 9. aldar. Á hinn bóginn eru Atla-
mál að öllu leyti miklu unglegra kvæði, og má af því ráða, hvemig ort var um
fornar hetjusagnir á síðari hluta 12. aldar á íslandi eða Grænlandi. Hliðstæður
og andstæður má einnig finna við samanburð Guðrúnarhvatar og Hamðismála.
Síðarnefnda kvæðið er í eldra flokknum og hefði því fullt eins vel mátt koma
á undan.
Fleira er ólíkt með þessari útgáfu og eldri hliðstæðum hennar, hinum fræði-
legu heildarútgáfum eddukvæða. Nærtækt er að bera hana saman við útgáfu
H. Gerings, sem lokið var við árið 1931 og er hin næsta á undan. Margt hefur
verið skrifað um eddukvæði á þeim tíma, sem síðan er liðinn, og þekkingu á