Skírnir - 01.01.1969, Blaðsíða 237
SKÍRNIR
RITDÓMAR
231
mörgum efnum fleygt fram, svo að margar skýringar Gerings eru taldar úr-
eltar nú. Þær skýringar, sem hér um ræðir, vitna um mikla þekkingu á fornum
germönskum og norrænum kveðskap og skarpa gagnrýni. Þó er útgáfu U.
Dronke fremur nýstárleg fyrir anna'ð en þetta. Fyrri eddufræðingar hafa
löngum miðað skýringar sínar við textafræðileg viðfangsefni fyrst og
fremst. Þeir hafa leitazt við að skilja og skýra mál kvæðanna og einstök
efnisatriði. Slíkt var vitanlega undirstaða frekari rannsókna og skilnings.
Ursula Dronke lætur sér ekki nægja að gera slíkum textaskýringum ræki-
leg skil. Hún skoðar eddukvæði ekki sem orðasteingervinga, heldur sem sígild
bókmenntaverk, sem verður að skýra m. a. frá sjónarmiði listsköpunar. Kemur
víða fram, að hún telur listræn sjónarmið höfundar hafa haft drjúg áhrif á
efnismeðferð og stíl. Hér verður þetta að sjálfsögðu ekki rakið, en aðeins
eitt dæmi nefnt. I Atlakviðu er víða mikill munur á lengd vísuorða; virðist
stundum ort með fornyrðislagi, en stundum málahætti. Bent hefur verið á
þetta sem sameiginlegt einkenni hinna elztu hetjukvæða, en síðar hafi brag-
formið smám saman orðið fastara, e. t. v. fyrir áhrif frá dróttkvæðum. En um
frumorsök þessarar eldfornu óreglu hafa menn verið í vafa, enda má einatt
efast um, að textinn hafi varðveitzt óhrjálaður, t. d. gátu kvæði um sama efni,
en mismunandi að hætti, ruglazt saman, meðan geymdin var einungis munnleg.
Ursula Dronke hafnar þeirri skýringu, að Atlakviða sé runnin saman úr tveim
kvæðum, ennfremur að tilviljun ráði lengd vísuorða, heldur hafi skáldið valið
kvæðinu þetta bragform af stílfræðilegum sökum. Hún bendir á, að í hraðri og
einfaldri frásögn sé jafnan notað fornyrðislag, en vikið til málaháttar til að
magna áhrif, þar sem fyrir verða breiðari lýsingar með áherzluþunga:
Atli sendi
ár til Gunnars,
kunnan segg at ríða;
Knéfr0ðr var sá heitinn.
At görðum kom hann Gjúka
ok at Gunnars höllu,
bekkjum aringreypum
ok at bjóri svásum.
Þessi skoðun er athyglisverð, hvort sem menn trúa því, að kvæðið beri upp-
runalegan svip eða ekki.
Seint munu eddukvæði verða skýrð og skilin til hlítar og því er á sviði
þeirra ærið rúm fyrir frjálsan leik hugarflugs. Margar edduskýringar - einnig
þær sem hlotið hafa almennt samþykki - eru í rauninni aðeins tilgátur. Kostir
þessarar útgáfu virðast annars vegar þeir, að hún gerir ljósa grein fyrir þeirri
þekkingu á eddukvæðum, sem þegar hefur verið aflað, en í annan stað er hún
til þess fallin að örva ímyndunarafl lesenda og opna þeim töfraheima mikils
skáldskapar.
Óskar Halldórsscn