Skírnir - 01.01.1969, Side 248
242
RITDÓMAR
SKÍRNIR
rannsóknir innan tiltekinnar fræðigreinar eða kaflar úr stærri verkum, en ég
þykist vita, að þessi litla bók sé í rauninni hluti úr stærra verki. Rit af þessu
tæi geta oft verið mjög gagnleg, eigi síður en þau, sem meiri eru að fyrirferð,
og mættu vel eiga framtíð fyrir sér hér á landi. - Eins og fram er tekið í for-
mála er bók frú Elsu ætlað að vera í senn eins konar fræðslu og kynningarrit.
Hefði því farið vel á því, að fylgt hefði efnisútdráttur á erlendu máli, t. d.
ensku.
Höfundur segir í inngangsorðum, að bókinni sé ætlað að lýsa helztu einkenn-
um íslenzkra þjóðbúninga og gera jafnframt grein fyrir þróunarferli þeirra.
Má segja, að ritið hefjist með 16. öld, en þangað aftur rekur höfundur nokkur
grundvallareinkenni þjóðbúninga íslenzkra kvenna, fyrst og fremst hinn háa
höfuðbúnað, er átti eftir að verða sérkennandi fyrir íslenzka kvenbúninga um
langa hríð, en jafnframt fellda pilsið og svuntuna, hvort tveggja „tízkufyrir-
brigði í Evrópu á þessum tíma“, eins og höfundur kemst að orði. (Hér mun
tæpt á þeirri áhrifaríku breytingu endurreisnartímans, þegar farið var að taka
miðaldakyrtilinn sundur um mittið, svo að fram kom upphlutur og pils, breyt-
ing, sem talin er hafa haft grundvallaráhrif á þjóðbúninga ekki sízt á Norður-
löndum.) Nokkurra fleiri erlendra tízkuáhrifa er getið fremst í bókinni, svo
sem spænsku kápanna, er orðið hafi fyrirmynd íslenzku kvenhempunnar á 17.
öld, svo og pípukragans og barðahattsins. En þegar kemur að meginefni bókar-
innar, lýsingu búninga á 18. öld og ofanverðri 19. öld virðist helzt að ráða af
ritinu, að þeir hafi þróazt án allra áhrifa frá umheiminum eða í öllu falli án
þeirra, sem umræðuverð séu. Ég minnist þess þó, að hafa séð öðru haldið fram
af erlendum fræðimönnum um faldbúning 18. aldar, og mundi ekki lögun stutt-
treyju átjándu aldar búningsins og borðaleggingarnar á bakinu á henni og upp-
hlutnum eiga sér fyrirmyndir í erlendri fatatízku, þótt tízkuáhrif ættu hér
þrengri aðgang, er þar var komið sögu, en á 16. öldinni? Um uppruna peysunn-
ar segir höfundur, að konur hafi tekið hana upp eftir karlmönnum, en hvað um
eitt höfuðsérkenni hennar, stakkinn? Hvemig stendur á þessu sérkennilega
nafni? Hafa íslenzkar konur fundið upp þessa búningsbót, eða fyrirfinnst stakk-
ur á kvenbúningum annars staðar, t. d. í nágrannalöndunum? Fróðleikskom
um þessu lík atriði finnst mér að hefðu aukið gildi ritsins og jafnframt aukið
áhuga lesandans á efni þess.
Aðalkostur þessa rits, auk fjölmargra ágætra mynda, er sá, hversu hlutum
er vel og skipulega lýst og vendilega fram talið hvaðeina, er ætla má, að til-
heyrt hafi hverri einstakri búningstegund. Eitt atriði langar mig þó að minnast
á í þessu sambandi. í skemmtilegri grein, sem Daniel Bmun ritaði um íslenzka
kvenbúninga laust eftir aldamótin, víkur hann einna fyrst að skóm, en það mun
engin undantekning, að þeirra sé getið, þegar fjallað er um þjóðbúninga. í
þessu riti er hvergi á þá minnzt né annan fótabúnað. Hefði þó verið fróðlegt að
heyra, hvað innflutningsskýrslur hafa um kvenskó að segja á þeirri miklu
verzlunar- og siglingaöld - sextándu öldinni. Mundu íslenzku sauðskinnsskóm-
ir vera án allra tengsla við erlenda skótízku og skógerð? Þetta em aðeins