Skírnir - 01.01.1969, Page 252
246
RITDÓMAR
SKÍRNIR
eftir áþekkri söguhetju nema í sögum GuSbergs Bergssonar). Lýsingin er í
rauninni svo neikvæð, að nærri liggur að hún fæli lesandann frá sögunni
eða drepi áhuga hans á söguhetjunni. I þessu sambandi verðum við að hafa
hugfast, að tæknilega er sagan sögð í fyrstu persónu, einsog fyrr segir, þannig
að við sjáum Benna einungis með hans eigin augum, sem kann bæði að skýra
neikvæði hans og afstöðu umhverfisins til hans. Miklar hann fyrir sér ást og
aðdáun eiginkonu og ástkonu? Gerir sjálfsásökunin það að verkum að hann
sér sjálfan sig í óhagstæðara Ijósi en efni standa til? Þessi tvískinnungur gef-
ur sögunni í rauninni nýja vídd, þó kynlegt kunni að þykja, og persónunni
aukið aðdráttarafl.
Þó lesandinn kynnist Benna langbezt af öllum persónum sögunnar vegna
þess að hann fær að skyggnast í sálarlíf hans, eru ýmsar aðrar persónur að
sínu leyti einnig furðuskýrar, kannski vegna þess að við sjáum þær með aug-
um Benna, þ. e. a. s. einungis ákveðna drætti, fáa en skýra. Eiginkonan, Elín,
er dregin skýrustum dráttum og verður eftirminnileg mannlýsing. Svipað má
segja um tengdamóðurina og jafnvel tengdaföðurinn líka, en aðrar persónur
verða mun óljósari, til dæmis Óskar, drykkjufélaginn og jafnvel ástkonan,
Helena, sem er þó einkar aðlaðandi persónulýsing. Faðir Benna, gróðabralls-
maðurinn óþreyjufulli, er allgreinilega uppmálaður og hefur sín ótvíræðu sér-
kenni, þó kumpánar af hans sauðahúsi taki að gerast umsvifameiri en góðu
hófi gegnir í íslenzkum bókmenntum. Um það þarf að vísu engum blöðum að
fletta, að þessi sérkennilega gullgrafaramanngerð hefur verið einstaklega al-
geng á Islandi á þessari öld, og má eflaust gera því skóna að Einar skáld
Benediktsson eigi sinn stóra þátt í viðgangi hennar, en hún verður vitaskuld
því vandmeðfarnari í skáldskap sem hún birtist þar oftar. Agnari Þórðarsyni
lánast að magna þennan gaur lífi, einkanlega í samskiptum hans við eigin-
konu og börn, og vissulega gegnir hann sínu stóra hlutverki í samhengi sög-
unnar, því hann er í senn örlagavaldur og blóraböggull Benna. Sem tákn er
portúgalska orðan viðsjárvert listbragð, enda fer höfundurinn flatt á því í
sögulok, en með meiri varfærni og minni áhuga á táknrænu gildi orðunnar hefði
hún getað orðið eftirminnilegur dráttur í myndinni af gamla manninum. Tákn
hafa því aðeins tilætluð áhrif, að þau séu lífrænn partur af efninu, en hangi
ekki utaná því einsog - portúgölsk orða.
Einsog fyrr segir er sá þáttur sögunnar langumfangsmestur sem fjallar um
fjölskyldumál söguhetjunnar, einkalíf og persónuleg vandamál. Um þessi efni
skrifar Agnar líka af mestri skarpskyggni og raunsæi. Lýsingin á hjúskapar-
málum Benna er traustasti og blæbrigðaríkasti þáttur frásagnarinnar og ber
vitni sálfræðilegu innsæi og næmri athyglisgáfu. Lýsingin á Hvalfjarðarförinni
er til dæmis mjög haglega samin, og svipað má segja um ýmis önnur atvik
þar sem bein frásögn af athöfnum og orðræðum kemur til. Agnari lætur greini-
lega bezt að gegna svipuðu hlutverki og kvikmyndavélin. Þegar hann hættir
sér útí heimspekilegar vangaveltur og spaklegar hugleiðingar um mannlífið
verður frásögnin innantóm, þvinguð, andvana. Myndmál sögunnar er víða