Skírnir - 01.01.1969, Page 266
260
RITDÓMAR
SKÍRNIR
í rúmi og tíma,
þessi eini hnöttur,
þetta stóra tár.
(Mjallhvítarkistan)
Þetta er freistandi að ætla vegna Þorpsins, vegna raunsæisaðferðar þess, hve
djúpt sem hún ristir, og vegna ýmsra beztu kvæða í Mjallhvítarkistunni. En þar
á móti kemur kvæði eins og Fjötrar:
Ég spyr
í þessu bjarta herbergi,
sem ég hef gert að fangelsi:
Hví er ekki myrkur?
Hví er ekki svo þétt myrkur,
að ég gæti hamrað í vegg þess
með logandi fingri
þennan einfalda sannleika.
En það er ekkert myrkur
og ekkert öðru sannara,
og fjötrar mínir úr geislum.
Þetta er einfaldur texti, en einfeldni hans býr yfir torkennilegri dul, hinni
einföldu myndgerð, almennu orðum tekst að miðla lesandanum með sér af
reynslu sem virðist honum verðmæt, og ný - allt annars eðlis en sú heimspeki
hversdagsins, hins óbrotna farsæla lífs sem Jóni úr Vör hefur einatt virzt mest
í mun að láta uppi í Ijóðrænum texta. Hinn duli og persónulegi tónn beztu
Ijóðanna í Mjallhvítarkistunni, í kvæðum eins og Draumkvœðinu, Snúrustaurn-
um og hamingjunni, Hlátrinum svo einhver séu nú nefnd auk þeirra sem fyrr
var getið, þykir mér lýsa nýjum áfanga skáldsins, markverðasta afrakstri
þeirra tuttugu og fimm ára sem bók þessi tekur til. Ég hygg, þeirra vegna, að
Mjallhvítarkistan geymi í dýrri mynd, ávöxtinn af ævi og reynslu eins hinna
raunverulegu frumherja módemismans í íslenzkri ljóðlist.
Skylt er víst að geta þess að kafli sem nefnist Hnit (og raunar fleiri staðir í
bókinni) iðka heimspekilegar æfingar sem litlu varða; kaflinn Héma í stofunni
minni lýsir hins vegar heimsádeilu sem Jóni hefur áður tekizt betur, tam. í fá-
einum kvæðum í Vetrarmávum. Engu er líkara en persónulegt viðfang beztu
ljóðanna í bókinni hafi fjarlægt skáldið yrkisefnum umheimsins.
Olafur Jánsson