Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1992, Blaðsíða 118
Kristján Búason
Lokaorö
Eins og getið var um í inngangi þessarar ritgerðar var markmiðið að gefa
stutt yfirlit yfir þróun formgerðarstefnunnar í bókmenntum fram til
helzta fulltrúa hennar í Frakklandi nú á dögum, A. J. Greimas, en
greiningarlíkan hans hefur verið notað við greiningu biblíutexta. í
kaflanum um forsögu var upphaf fyrst og fremst rakið til málvísinda-
kenninga de Saussure og mikilvægrar útfærslu Hjelmslevs, síðan var gerð
grein fyrir þróun hljóðkerfisfræðinnar og framlagi rússnesku
formalistanna, einkum Jakobsons, þar sem líkan málvísindanna er yfirfært
á bókmenntir. Þar á eftir fylgdi yfirlit yfir þróun greiningar formgerðar
innihalds texta, mismunandi djúpgerða þverstæðna, einkum manngerða,
atburða og kringumstæðna, allt frá Propp til Barthes og loks Greimas.
Nokkur þekking á grundvallarhugmyndum formgerðarstefnunnar og
útfærslu þeirra, er nauðsynleg forsenda til skilnings á fræðilegri um-
fjöllun um hvers konar texta nú á dögum, einnig þeirra fræðimanna, sem
hafa mætt ýmsum grundvallarforsendum heimar iðulega með réttmætri
gagnrýni, svo sem þeirra, sem taka tillit til tjáskiptakringumstæðna, áhrifa
viðtakandans á ákvörðun merkingar, reglna í málhugsun mannsins til að
mynda óendanlegan fjölda setninga eða draga í efa ýmis grundvallandi
atriði í kenningum de Saussures eins og efnislega aðgreiningu táknmyndar
og táknmiðs og skýra aðgreiningu sögulegrar þróunar og samtímasögu-
legrar skoðunar máls.126
Að lokum má spyrja, hvaða gagn menn hafi af því að vita, hvemig
textar hafi merkingu, þegar talað mál og textar þjóna eðlilegum
boðskiptum, án þess að menn séu meðvitaðir um, hvemig það gerist. Því
er til að svara, að formgerðargreining, sem er mjög fjölþætt greiningar-
aðferð, fæst við formgerð, sem er ávallt í tengslum við efnivið, hvort
heldur um innihald eða framsetningu er að ræða. Þrátt fyrir takmarkanir
sínar, sem em af ýmsu tagi, skerpir formgerðargreining skilning á merk-
ingu texta, þegar hún dregur fram, hvemig hann hefur merkingu.127
Lokið í október 1991
126 Sjá m. a. Culler, Saussure, bls. 53-131.
127 Þeir Ástráður Eysteinsson og Davíð Erlingsson lásu prófórk af þessari ritgerð og er
þeim þakkaðar ýmsar ábendingar einkum um þýðingar á ffæðiorðum og málfar.
116