Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1992, Blaðsíða 156
Sigurður Pálsson
G. Notkun tákna
Myndun tákna hefur eingöngu tengsl við þann veruleika sem er handan alls.
Einstaklingar á þessu skeiði skapa þannig og miðla til annarra dýpt og
skilningi sem einkennist af þekkingu þeirra á því sem mestu varðar. Þannig
býr þekking þeirra yfir dýpt sem getur haft mikla þýðingu fyrir umheiminn.
Fowler leggur áherslu á að mjög erfitt sé að gefa tæmandi lýsingu á 6.
stigi. Grundvallarafstaða og breytni einstaklinga á þessu stigi, sem á sér
rætur í samsömun þeirra með öllu sem er, er eðlisólík þeirri sem menn hafa
á fyrri stigum. Fowler dregur þess vegna sjálfur í efa að réttmætt sé að líta
svo á að sjötta skeið sé framhald þess fimmta.
Trúin og hvatar til breytinga
Kenning Fowlers sem hér hefur verið reynt að gera grein fyrir, er tilraun til
að lýsa kerfisbundinni þróun trúarlegrar hugsunar að því er varðar bygg-
ingu og formgerð. Hún er fram sett í því skyni að auka skilning á þeim
breytingum sem verða á sjálfi manna í glímu þeirra frá einu skeiði til
annars. Fowler leitast við að gera grein fyrir og lýsa því mynstri þekkingar,
gildismats og skuldbindinga sem vera og trú einstaklingsins á hverju skeiði
fyrir sig er ofin.
Sem guðfræðingur telur hann þetta lýsa ásköpuðum möguleikum manns-
ins til síaukinnar sjálfsþekkingar, sjálfsgagnrýni og ábyrgðar í samfélagi
sínu við Guð og menn.
Kenningin fjallar um og gengur út frá margvíslegum breytingum sem
maðurinn tekur á æviskeiði sínu. Fowler telur, án þess að álíta að hann sé
að setja fram einhver algild sannindi, að flokka megi þessar breytingar í
þrjá flokka.36
í fyrsta lagi nefnir hann breytingar sem eru afleiðing margs konar þroska
(developmental change). Með því er átt við þetta flókna ferli sem felur í sér
mótun og endurmótun sjálfsins, sem virðist eiga sér stað þegar skiptast á
skeið jafnvægis og ójafnvægis. Þessu má líkja við göngu sem segja má að
sé ekkert annað en fall með fullri stjóm. Maðurinn kemst hvergi fótgang-
andi, nema komið verði til leiðar því jafnvægisleysi sem knýr hann til þess
að bera annan fótinn fram fyrir hinn! Hversu þetta þroskaferli er flókið
ræðst hins vegar af því hve margir þættir eru að verki í manninum
samtímis. Suma þessara þátta má nefna:
1. Líkamlegur þroski. Með honum breytist félagsleg staða einstaklingsins
og sjálfsímynd hans. Það að vaxa úr grasi, þroskast og verða aldraður
hefur einnig áhrif á andlegt líf mannsins.
2. Vitsmuna- og skynþroski. Með honum breytist háttur okkar að skynja,
móta, túlka og fá vit í reynslu okkar.
36 James W. Fowler: Faith Development and Pastoral Care, Philadelphia (Fortress
Press) 1987.
154