Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1992, Blaðsíða 178
Þórir Kr. Þórðarson
andstef sem skapar spennu við hið fyrra; rennur fram að ósi sínum eins
og voldugt fljót og sameinast sögu Salómons og hins glæsta tíma heims-
veldis og hámenningar. En þar birtist einnig hinn dumbaði tónn fráfalls
og sundrunar, og stóð sú blómaöld því ekki lengi. Þannig fléttast saman
stefin tvö um guðlega náð og mannlega dýrð annars vegar og hins vegar
hin harmrænu örlög sem mönnum eru einatt búin. Það er því ekki að
ófyrirsynju að menn kalla Gamla testamentið hinar raunsæjustu bók-
menntir allra tíma.
Texti Samúelsbóka
Þetta mikla listaverk frásagnarsnilldar fer ekki varhluta af sínum texta-
vandamálum. Þau voru rannsökuð ítarlega af S.R. Driver, Notes on the
Hebrew Text of the Books of Samuel, við upphaf þessarar aldar og ótal
sinnum síðar, en Qumranhandritin gefa okkur mynd af texta sem er líkari
hinum lengri texta LXX en Masoretatextanum.3 En þau atriði snerta ekki
viðfangsefni okkar, og fer ég því ekki út í þau.
Inngangsfræði kaflanna
Allt frá því L. Rost gaf út Die Uberlieferung von der Thronnachfolge
Davids 1926 og til vorra daga hafa menn reynt að komast að niðurstöðum
um tilurðarsögu Samúelsbóka.
Hin eldri rýni gerði ráð fyrir framhaldi heimildaritanna úr Fimm-
bókaritinu, og svo seint sem í 3. útgáfú hinnar miklu Inngangsfraéði Ottos
Eissfeldt's [sem liggur til grundvallar hinni ensku þýðingu Peters
Ackroyd's 1966] gerði Eissfeldt ráð fyrir þremur heimildaritum í Sam:
L, J og E. Nú til dags hallast menn fremur að hefðasögulegum aðferðum
og má af handahófi nefna höfunda eins og Finnann Veijola og Jesúítann
A.F. Campbell, sem skrifað hafa um málið. Skoðanir eru skiptar, en hér
fjalla ég ekki um aldur hinna einstöku þátta heldur frásagnarþráðinn eins
og hann liggur fyrir í núverandi listaverki, Fyrri Samúelsbók. En til
gamans má minna á kenningar Martins Noths í hinu mikla rannsóknarriti
hans Uberlieferungsgeschichtliche Studien 1943, en eins og allir muna
sem lesið hafa inngangsfræði eru niðurstöður hans þær að söguritin öll
frá Deuteronómíum (Fimmta Mósebók) til 2. Konungabókar séu verk
sagnaritara sem uppi var á herleiðingartímum og nefnist Deuteronóm-
istinn. Hann hafi samt ekki samið bækumar heldur ritstýrt þeim á
grundvelli eldri heimilda og gefið þeim sitt endanlega mót byggt á sögu-
skýringu Deuteronómíums.
Veijola hefur fjallað um ýmsa deuteronómska redaktora, en allt er það
mál á huldu enn og alls ekki um neinn konsensus að ræða í hinum
fræðilega heimi. A.F.Campbell, S.J., kemst að þeirri niðurstöðu í bók
sinni Of Prophets and Kings (sem ég hef ekki átt aðgang að enn) að
Samúelsbækur og Konungabækur út að 11. kap. í 2. Kon. séu verk spá-
mannaskóla seint á 9. öld.
3 Frank Moore. Cross, Jr. The Ancient Library of Qumran and Modern Biblical
Studies, New York: Dobleday, 1958, s. 133f.
176