Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2005, Page 13
úti í Hamborg. Upphaflega var stóllinn málaður í mörgum litum sem hafa
nú verið hreinsaðir af og stóllinn brúnlakkaður að utan. Predikunarstóllinn
virðist upphaflega hafa verið í eigu Guðbrands og erfingja hans og ekki
komist í eigu dómkirkjunnar fyrr en við dauða Þorláks Skúlasonar (1656)
eða jafnvel sr. Skúla sonar hans (1704). Stóllinn var síðan kominn í Fagra-
neskirkju á Reykjaströnd fyrir 1764.3 Ekki var óalgengt að sá sem pantaði
verk á borð við þetta og ætlaði jafnvel að gefa kirkju léti það jafnframt halda
eigin minningu á lofti. Kirkjugripir gátu því þjónað sama hlutverki og þær
fjölmörgu minningartöflur sem til eru úr kirkjum bæði hérlendis og erlend-
is og gerðu hvort tveggja í senn, prýddu kirkjumar og gerðu gefandann
ódauðlegan. Þannig kann að standa á svipmótinu með guðspjallamanninum
og Guðbrandi.
Allar eru hinar varðveittu myndir frá efri árum biskups. Af einum þrem-
ur máluðu myndanna má jafnvel lesa hækkandi aldur út úr andlitsdráttunum.
Sú síðasta gæti verið gerð skömmu áður en hann lagðist í körina löngu sem
hlífði honum m.a. við að sjá dómkirkju sína verða hrörnun og óveðri að bráð.
Tengsl eru milli nokkurra myndanna þannig að sumar eru fyrirmyndir ann-
arra þótt ekki verði þær allar raktar til sömu frummyndar.4 Þess vegna er at-
hyglisvert að þeim ber býsna vel saman um andlitsdrættina í meginatriðum.
Varðandi heimildargildi myndanna er rétt að hafa í huga að enn í dag rík-
ir ákveðin táknmálshefð við gerð „portrett“-mynda jafnvel þótt um ljós-
myndir sé að ræða. Biskup er sýndur í skrúða eða með önnur biskupstákn,
læknir í hvítum sloppi, menntamenn almennt með bækur í bakgrunni, sjó-
menn löngum með sjóhatt á höfði eða í það minnsta niður við höfn ef ekki
um borð. A 16. og 17. öld var þetta táknmál enn bundnara og sú stöðlun sem
það kom til leiðar enn meiri en gerist nú á dögum eftir að einstaklingsvit-
und bæði í sálfræði og tilfinningalífi, sem og raunsæi í myndlist hefur kom-
ið til sögunnar. Þetta listræna táknmál staðlar myndirnar af Guðbrandi að
einhverju leyti. Hann er alls staðar búinn svartri hempu embættis- og
menntamannsins, stundum ber hann hettu á höfði eins höfð var í saggasöm-
um húsum, bækur og skjöl eru jafnan innan seilingar og er það að líkindum
ekki hvað síst myndræn (íkónógrafísk) vísun.
Eitt af olíumálverkunum af Guðbrandi er úr Þingeyrarkirkju frá um 1620
er líklega gert af erlendum listamannni og talið frummynd Um málverkið
segir í skrám Þjóðminjasafns:
3 Þjóðminjasafn Islands - Munaskrá. Sérskrá - Vídalínsskrá, A: 1. http://www. sarpur.is.
4 Þjóðminjasafn Islands - Munaskrá. Alm. munaskrá. A: 1823. http://www. sarpur.is.
11