Skírnir - 01.01.1959, Blaðsíða 26
22
Hermann Pálsson
Skírnir
þetta rit eftir frænda sinn. Um það leyti sem Þórarinn er
prestur á Völlum og skrifar bækur handa Hólum og Valla-
stað, er Egill súbdjákn faðir hans í Reykholti, þar sem rit
Snorra hafa þá enn verið til. Eins og áður var bent á, áttu
nokkrar aðrar kirkjur á Norðurlandi Ólafs sögu helga árið
1318. Má það heita ekki ósennilegt, að sumar þeirra að
minnsta kosti hafi fengið uppskriftir frá Hólum, en þar hef-
ur Ólafs saga hlotið að vera til um 1300, þótt Ólafs sögu í
eign Hólakirkju sé fyrst getið árið 1396,6) en þá átti hún
einnig Ólafs sögu Tryggvasonar (Ólafanna sögur). Elzta skrá
yfir bókaeignir Hólakirkju er frá árinu 1396, og því vitum
við ekki um fyrri bókaeign.
Ef þess er rétt til getið, að Þórarinn hafi skrifað upp Ólafs
sögu handa Hólakirkju og Vallastað, þá er ekki ósennilegt,
að sum þau handrit, sem varðveitzt hafa af sögunni, séu frá
uppskrift hans runnin. En það verður ekki rakið hér nema að
litlu leyti. Seint á 14. öld lét Jón Hákonarson í Víðidalstungu
gera mikið handrit af konungasögum og öðrum fróðleik, og
hefur sú bók um langan aldur verið kölluð Flateyjarbók. Þar
eru meðal annarra sagna sögur af Ólafi Haraldssyni og Ólafi
Tryggvasyni. Jón Hákonarson hefur sennilega ekki átt nema
lítið af þeim sögum, sem skráðar voru í hina miklu bók.
Hann hefur því orðið að leita til annarra manna um handrit
til uppskriftar. Nú hefur Sigurður Nordal bent á, að vinátta
var með þeim Jóni og Einari Hafliðasyni presti á Breiðaból-
stað, höfundi Lárentíus sögu. Þykir mér sennilegt, að Ólafs
saga helga hafi verið ein þeirra sagna, sem Jón fékk léðar
frá Einari. Ólafs saga var til á Breiðabólstað árið 1360,7) en
hefur líklega verið þar til löngu fyrr. Árið 1314 lét Hafliði
Steinsson, faðir Einars, reisa nýja kirkju að Breiðabólstað, og
var hún helguð Ólafi Haraldssyni.8) Þá hefur kirkjan hlotið
að eignast Ólafs sögu, ef hún hefur ekki átt hana fyrr. Nú
hagar svo til, að síra Hafliði var um langa hríð ráðsmaður
á Hólum, eins og áður var bent á.9) Því er það ekki ótrú-
legt, að Hafliði hafi eignazt eintak af Ólafs sögu þar og gefið
síðan kirkjunni á Breiðabólstað, þar sem það var fengið að
láni við uppskrift Flateyjarbókar mörgum áratugum síðar.