Skírnir - 01.01.1959, Blaðsíða 108
104
Aðalgeir Kristjánsson
Skírnir
VIII um endurreisn Alþingis. Þau eru þessi: 1) að þingið sé
eins líkt Alþingi hinu forna og orðið geti, 2) að það sé haft
á sama stað og 3) að það beri sama nafn. I stuttu máli vildi
Tómas víkja eins lítið frá skipulagi hins foma Alþingis og
mögulegt var. Um kjörgengi og kosningarétt, eða eins og hann
orðar það: „hvurjir velja megi lögréttumenn og hvurja til
lögréttumanna megi taka“, em skoðanir hans líkar og
Jóns Sigurðssonar, en höfuðáherzluna leggur hann á, að
Þingvellir verði þingstaðurinn og segir, að traðkað sé á vilja
konungsins, ef þingið sé látið vera annars staðar. Hins vegar
leggst hann eindregið gegn því, að leitað sé erlendra fyrir-
mynda að skipulagi þingsins, eins og fundamenn embættis-
mannasamkomunnar gerðu sig seka um nokkru seinna sama
ár.
Enda þótt rómantíkin geri Tómas helzt til óraunsæjan,
verður því ekki neitað, að hann fór sínar eigin götur og var
sjálfstæður og sérstæður í málflutningi sínum, og það var
meira en hægt var að segja um þá, sem falið var í hendur
að fjalla um Alþingismálið.
Embættismannasamkoman hófst 5. júlí 1841. Samkvæmt
úrskurði konungs skyldi hún taka Alþingismálin til meðferðar.
Fimm manna nefnd var kosin til að fjalla um þau. Páll Þórð-
arson Melsteð var framsögumaður nefndarinnar, en hinir
voru Bjarni Thorarensen, Bjami Þorsteinsson, Þórður Svein-
björnsson og sr. Árni Helgason. Af störfum þings og nefnd-
arinnar er það skemmst að segja, að skipulag þingsins var
sniðið eins og verða mátti eftir dönsku stéttaþingunum, og
voru þau rök færð til þess, að þar sem hið nýja Alþingi ætti
að gegna sama hlutverki fvrir ísland og dönsku stéttaþingin
fyrir Danmörku, mætti ekki bregða út af því, nema þar sem
sérhættir íslands gerðu það óhjákvæmilegt. Kosningarétturinn
var mjög takmarkaður, bundinn við 25 ára aldur og 10 hundr-
aða eign eða lífstíðarábúð á 20 hundraða jörð. I kaupstöðum
jafngilti að eiga húseign virta á 1000 rd. Kjörgengi var hund-
ið við 30 ára aldur, en við sömu eign og kosningaréttur.
Einn var sá maður á þessum fundi, sem uggði, að þessi
kosningalög mundu lítt henta á íslandi; það var Páll Melsteð.