Skírnir - 01.01.1959, Blaðsíða 49
Skímir
Um Jón Gerreksson
45
að hann hafi sýnt kórsbræðrum hroka og fyrirlitningu og far-
ið sínu fram, hvað sem þeir sögðu. 1 byggingar-framkvæmd-
um var hann stórvirkur og hefur, að þvi er sænskar heim-
ildir herma, haft um sig flokk manna. Góðar og miklar veizl-
ur er hann talinn hafa haldið, og telja sænskar heimildir, að
þetta þrennt hafi orðið honum mjög útgjaldasamt. Þær vilja
líka halda því fram, að kórsbræður hafi varað hann við föður-
lega, bróðurlega og sonarlega bæði munnlega og skriflega.
En engar beinar heimildir eru til um neinar þessar viðvaranir.
Og sakarefnin, er ollu því, að Jón Gerreksson missti erkibisk-
upsdóm, eru í augum nútímamanna mjög smávægileg. Og enn
smærri virðast þessi sakarefni, er athugað er, hvað borið er
á hann við brottför hans úr erkibiskupsstóli.
Skal nú mál þetta rakið að nokkru, eftir því er fram kom,
er lokasenna þessa máls var gerð hjá Eiríki konungi af Pom-
mern í Kaupmannahöfn 9/7 1419.6) Árið 1414 bjó í Stokk-
hólmi ung ekkja, Helleka að nafni. Hún var ekkja eftir borg-
arann Hans Hom, sennilega lagleg og rík. Átti hún fleira
en eitt hús og auk þess kálgarða, lóðir og búðir. Margir hafa
orðið til að biðja til hennar, en einum þeirra, Ludbert Korten-
horst, lofast hún í votta viðurvist 14/11 1414. Fór það fram
á venjulegan hátt með faðmlögum, kossum, hringaskiptum
og festargjöfum. Og farið var að undirbúa veizlu til staðfest-
ingar samningnum.
En tíu dögum síðar hafði Helleka breytt um álit sitt á brúð-
gumanum og vildi nú ólm losna við hann. Hún hélt þvi fram,
að hún hefði ekki lofazt að fullu og öllu, þannig að málspart-
ar væm bundnir óleysanlegum böndum frá trúlofunardegi,
heldur væri um að ræða framtíðarloforð, þ.e. loforð um hjóna-
band í framtíðinni. Þessu vildi Ludbert ekki una, en krafð-
ist, að Helleka stæði við loforð sitt, og vildi fá kirkjulega stað-
festingu um gildi þess. En Helleka sneri sér til Jóns erkibisk-
ups Gerrekssonar til þess að fá trúlofunina rofna, en hann
virðist þegar í stað hafa tekið að sér málstað hennar. Var þá
annar biðill kominn í ljós, er Helleka vildi heldur sinna. Hét
hann Gottschalk (Gottskálk) Severinghusen, ríkur borgari í
Stokkhólmi.