Skírnir - 01.01.1959, Blaðsíða 195
RITFREGNIR.
Björn Magnússon: Guðfræðingatal 1847—1957. Leiftur. Reykjavík
1957.
Nú á síðustu áratugum hefir það orðið tízka mikil að semja og gefa út
töl ýmissa flokka manna, er lokið hafa sérfræðilegum prófum, einkum
í háskóla (lærðra manna töl), svo og starfshópa. Eru þessi töl skrár um
ævi hvers einstaklings, fæðingarár og dánar, ef látinn er, próf og oftast
einkunnir, störf, nafn eiginkonu eða eiginmanns o. s. frv.
Hið fyrsta af slikum tölum, sem á prent hefir komið, þótt ekki væri
sérstök bók, mun vera lögfræðingatal eftir Magnús Stephensen í Tímariti
Bókmenntafélagsins 1882. (Áður hafði Jón landlæknir Hjaltalín ritað
um „læknaskipan á Islandi" í Nýjum félagsritum 1844, sem öðrum
þræði var eins konar læknatal). Því næst kemur svo alþingismannatal
Jóhanns Kristjánssonar 1906, guðfræðingatal Hannesar Þorsteinssonar
1907—10, Prestaskólamenn eftir Jóhann Kristjánsson 1910 og læknatal
eftir sama höf. 1914 (þar sem er stuðzt við ritgerð Jónasar landlæknis
Jónassens um læknaskipun á íslandi í Timariti Bókmenntafélagsins 1890).
Varð síðan nokkurt hlé ó þessum tölum. Lang-nákvæmast og merkilegast,
að því er mannfræði alla varðar, er tal Hannesar. Þar eru niðjar raktir
í 3. og 4. lið.
Töl þessi eða æviskrár eru kjörgripir hinir mestu og mjög nauðsyn-
legir til uppsláttar. Væri það hrein sóun á tima fræðimanna og annarra
að þurfa í hvert skipti að leita til frumgagna til að fá vitneskju um ein-
földustu staðreyndir úr ævi manna. Þá er mikill styrkur og þægindi að
þessum ritum fyrir ættfræði alla, svo langt sem þau ná (raunar má segja,
að minni þörf sé á sértölum, eftir að Isl. æviskrár komu út, en þó eru
sértöl sjálfsögð, enda eru Isl. æviskrár einungis um látna menn). En til
þess að þau komi að notum, verða þau að vera sem allra áreiðanlegust,
en því miður er ekki alltaf þvi að heilsa. Oft mun sá háttur á hafður,
að menn þeir, sem í þessi töl eru skráðir, eru beðnir að veita upplýsingar,
ef á lífi eru, og er það raunar eðlilegt. En sumir eru svo lítilsigldir, að
þeir veita villandi upplýsingar eða beita hreinum fölsunum, t. d. draga
undan launbörn, segja rangt um aldur o. s. frv. Verður útgefandinn því
að reyna að ganga úr skugga um öryggi æviatriðanna, eftir því sem
föng eru á.