Skírnir - 01.01.1959, Blaðsíða 228
222
Ritfregnir
Skírnir
voru háskólafyrirlestrar hans og ýmsar sérrannsóknir, er hann hafði gert
á sögu tímabilsins. En verkið var á ýmsu stigi, sumir kaflar fullsamdir,
aðrir hálfunnir, og loks var samningu sumra þátta skammt á veg komið
eða þá vantaði alveg. Þetta fór nokkuð eftir því, hvernig efnið lá fyrir
til háskólakennslu. Þar sem eldri rit voru til, svo sem Kristnisaga íslands
eftir Jón biskup Helgason og Saga Islendinga, 16. öld, eftir Pál E. Ölason,
var ekki jafnaðkallandi að semja þá þætti, sem þar var fjallað um. Einnig
var eðlilegt að láta þá þætti, sem mikilvægastir voru, sitja í fyrirrúmi,
eins og t. d. stjórnmálasöguna, samskipti Islendinga og konungsvalds, svo
og verzlunar- og hagsögu tímabilsins. Þó að ritið í heild sinni væri þannig
fjarri því að vera fullbúið frá höfundarins hendi, var það þó til allrar
hamingju svo langt á veg komið í mörgum greinum, að ekki þótti aðeins
fært, heldur meira að segja sjálfsagt að gefa það út sem annað bindi
Islendingasögu hans. Var sannarlega vel farið, að í þetta var ráðizt nú
þegar. Eins og vænta má, er mikill fengur að ritinu, enda kemur það
engum á óvænt, sem þekkir til vinnubragða dr. Jóns Jóhannessonar, vis-
indalegrar hófsemi hans og vandvirkni. Er það mjög að harma, að hann
gat ekki lokið þessu verki.
Háskólafyrirlestrar höfundar taka yfir rúmlega helming bókarinnar
(bls. 15—201). Um útgáfu þeirra kemst útgefandi svo að orði i formála:
„Útgáfu fyrirlestranna hefir verið hagað á þá lund, að fyrst var texti höf-
undar borinn saman við þrjár gerðir uppskrifta nemenda hans frá síðustu
árum. Kom þá i ljós, að dr. Jón hafði allvíða aukið inn setningum, t. d.
nánari skýringum, svo og betrumbætt orðalag í flutningi. Þar sem öruggt
þótti af samanburði hinna ýmsu gerða, að treysta mætti textanum, og
breytingarnar þóttu ótvírætt vera til bóta, var tekið tillit til þeirra í út-
gáfunni. Sérstöku máli gegnir um fyrirlesturinn um konungsvaldið og
réttindabaráttu Islendinga í upphafi 14. aldar á 45.—öl.bls. Þann kafla
varð að prenta nær allan eftir nýjustu uppskriftum nemenda." Enn
fremur kveðst útgefandi hafa aukið inn meginþorra tilvitnana í heimildir
neðan máls, sannreynt orðréttar tilvitnanir og hvers konar staðreyndir,
svo sem mannanöfn og ártöl, og sett millifyrirsagnir í flesta fyrirlestrana.
Hefir allt þetta og annað starf að útgáfunni ekki verið vandalaust, en eg
fæ ekki betur séð en það sé unnið af mikilli alúð og samvizkusemi.
Fyrirlestrarnir skiptast í þrjá aðalþætti, er greinast þannig: 1) Saga
konungsvalds og Alþingis, þar sem rætt er um lögbækurnar Járnsíðu og
Jónsbók, breytingar, sem urðu á stjórnskipun landsins við lögtöku þeirra,
réttindabaráttu Islendinga, tekjur konungs af landinu til siðaskipta og
embættismenn konungs hér á landi, hirðstjóra, lögmenn og sýslumenn.
2) Saga íslenzkrar kirkju, þar á meðal um staðamál hin síðari, kristinrétt
hinn nýja, kosningar og skipanir biskupa og deilur Ólafs biskups Rögn-
valdssonar og leikmanna um kirknamál, og nær þessi þáttur fram undir
lok 15. aldar. 3) Verzlunar- og hagsaga, sem nær í stórum dráttum fram
til siðaskipta.