Skírnir - 01.01.1959, Blaðsíða 31
Skírnir Edda Lelewels og Edduefni í ljóðum Slowackis 27
nafni Pinkerton, sem hafði birt Fyrirlestur um Skýþa og Gota
(1787), er Lelewel vitnar í. Heitið „Skýþar“ virðist hann
hafa látið ná yfir ýmsar þjóðir, sem vér mundum nú kalla
indóevrópskar: t. d. þjóðir, er töluðu tungur svo sem forn-
persnesku, forngrisku, ítalskar og germanskar tungur fornar
(en sleppir keltnesku sem sérstakri grein). Sem trúr arf-
taki upplýsingarstefnunnar leitast Lelewel við að finna með
öllum „skýþískum“ þjóðum leifar af átrúnaði á einn æðstan
guð. Sú hugmynd, segir hann, er bezt varðveitt í „alföð-
ur“ Norðurlandabúa. Islandi — sem hann ritar „Eislandya“
— er það að þakka, að varðveitzt hafa þessar dýrmætu leifar
frumstæðs átrúnaðar, sem hann gefur fyrirheit um að lýsa.
Síðan er stuttlega gerð grein fyrir því, sem Lelewel kallar
Gamla Eddu og Nýja, og þá koma örfá orð um „Semund
Frode“ og „Snorro Szturleson“ — hið síðara nafnið mjög
pólskt að stafsetningu.
Mallet er viðurkenndur beinum orðum sem heimildarmað-
ur, en sjálfar eru heimildirnar túlkaðar mjög stuttlega og
jafnvel svo, að það gefur ranga mynd. tJr Sæmundar-Eddu
eru tilvitnanir, sem taka yfir minna en eina blaðsíðu, undir
fyrirsögninni Völuspá. Þessar tilvitnanir eru byggðar á þýð-
ingu Mallets í óbundnu máli á Bartholinusi. Úr Hávamálum,
sem sagt er, að hafi verið 120 erindi alls, eru fáeinar blað-
síður af dæmum, sem tekin eru úr spakmælum og því, sem
Lelewel kallar „galdur Óðins“. Og það er allt og sumt.
Síðari hluti bæklingsins er helgaður goðfræðilegu efni, sem
sótt er í Snorra-Eddu. Hann inniheldur ágrip — lítið meira
— af sköpunarsögu heimsins, eins og Snorri segir hana; af
uppruna manna og annarra vera og af lýsingu á Valhöll. Þar
er sagt frá baráttu goðanna við jötna og skýrt frá öðrum vá-
legum óvinum guðanna, svo sem Fenrisúlfi og Miðgarðsormi
(alltaf er ritað Midgrad hjá Lelewel). Af einstökum sögum
er sagt frá sendiför Skírnis fyrir hinn ástsjúka Frey, smiði
Valhallar, og (nokkuð ýtarlega) dauða Baldurs og ragna-
rökum. Jafnvel í þessari stuttaralegu frásögn, sem ekki er
byggð á frumheimildum, skín hér eitthvað af hinum upp-
runalega stórfengleik ragnaraka gegnum hina pólsku umritun.