Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Page 83
L e s i ð í s k u g g a h r u n s i n s
TMM 2010 · 4 83
vaknar upp við það einn góðan veðurdag að brotist hefur verið inn á
heimili hennar meðan hún svaf og öll verðmæti verið hreinsuð út af
heimilinu. Þetta innbrot býður lesanda upp á að minnsta kosti tvær
leiðir til að lesa söguna. Annars vegar má lesa hana sem sálfræðilega
skáldsögu sem lýsir samskiptum tveggja einstaklinga og ólíkra kyn
slóða, hins vegar má skilja hana sem allegóríu, táknsögu þar sem
Gunnur stendur fyrir þjóðina og innbrotið fyrir þær gripdeildir sem
fjármálageirinn stundaði í góðærinu.
Gunnur fyllist magnleysi við innbrotið en tekur það til bragðs að
flýja bæinn og fara í sumarhús fjölskyldunnar yfir helgi. Þegar hún er
að leggja af stað drífur þar að innanhúsarkitekt sem hefur unnið fyrir
hana. Með henni í för er unglingsdóttir hennar sem hún þarf að koma
fyrir yfir helgi. Mótmæli Gunnar mega sín lítils og hún situr uppi með
stelpuna. Hún á ekki um annað að velja en að taka hana með sér í
sumarhúsið, sem Gunni þykir raunar réttara að kalla vetrarhús – með
laufléttri vísun í Sjálfstætt fólk – enda ferðin farin að vetrarlagi.
Gunnur segir sögu sína í Vetrarhúsinu, hluta sögu sinnar segir hún
unglingnum Hind, þær ferðast saman inn í fortíðina og kanna saman
húsin sem Gunnur bjó í sem barn og ung kona. Karlsvagninn fjallar um
samskipti tveggja kvenna, en hún fjallar ekki síður um kynslóðir. Það
gæti verið fróðlegt að lesa hana saman við kynslóðauppgjör í verkum
yngri höfunda eins og Auðar Jónsdóttur í Fólkinu í kjallaranum eða
jafnvel í eldri verkum Mikaels Torfasonar. Hér tekur til máls fulltrúi
þeirrar kynslóðar sem sat á sakamannabekk í þeim sögum. Gunnur er
raunar víða dómhörð í lýsingum sínum á bæði þeim kynslóðum sem á
undan henna komu og þeim sem fylgdu á eftir: það er auðvelt að fá á
tilfinninguna að engin kynslóð hafi nokkurn tíma kunnað að ala upp
börn á Íslandi nema hennar eigin.
Eitt af megintáknunum í sögu Kristínar Marju er kuldinn og veturinn
sem er bæði í náttúrunni og tilfinningalífi persónanna. Veturinn er
aðalpersóna í annarri skáldsögu sem kom út á síðasta ári, sögu sem
að mati undirritaðs var einn af hápunktum jólabókaflóðsins, Harms
englanna eftir Jón Kalman Stefánsson.
Í fyrravetur kenndi ég námskeið um eitt af uppáhalds skáldverkum
Jóns Kalmans, Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, í Endurmenntunar
stofnun Háskóla Íslands. Fyrir einn tímann hafði ég undirbúið mig
vandlega undir að hrekja þá túlkun margra fræðimanna að Aðventa væri
fyrst og síðast kristileg dæmisaga. Það reyndist vera eins og að hlaupa á
opnar dyr. Fjölbreyttur hópur nemenda á öllum aldri hafði engan áhuga
á að tengja söguna við trúarbrögð eða önnur hugmyndakerfi og skildi