Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Síða 33
Tv ö fa l t l í f
TMM 2014 · 4 33
Þorvaldur: Þú nefnir Halldór Laxness. Eftir að hann féll frá, hafði ég orð
á því í vinahópi, að mér fyndist fara vel á, að Halldór fengi að hvíla við hlið
Jónasar Hallgrímssonar og Einars Benediktssonar í heiðursgrafreitnum á
Þingvöllum. Þá var sagt: Sjálfstæðisflokkurinn er ekki búinn að fyrirgefa
honum Atómstöðina. Samt er lýsing Halldórs á Búa Árland geðfelld og hlý.
Það segir mér, að Halldór hafði engan áhuga á að sverta þá, sem hann var
ósammála.
Þráinn: Mikið held ég að Halldóri hefði verið skemmt ef hann hefði verið
spurður að því í lifanda lífi hvort hann vildi að Sjálfstæðisflokkurinn holaði
honum niður milli Einars Ben og danska slátrarans sem Jónas frá Hriflu og
Sigurjón á Álafossi gerðu að staðgengli Jónasar Hallgrímssonar í heiðursreit
eilífðarinnar.
Þorvaldur: Jógvan Ísaksen, færeyski rithöfundurinn, á það sammerkt með
þér, að glæpasögurnar hans, til dæmis Grár október og Ljúf er sumarnótt í
Færeyjum, eru lagskiptar að því leyti, að þær setja glæpina í samhengi við
þjóðlífið. Mér er minnisstæð frásögn hans af útvegsmanninum, sem siglir til
lands með eiturlyfjafarm frá SuðurAmeríku og boðar komu sína með því að
senda vinum sínum í landi kveðju í Óskalögum sjúklinga. Jógvan sagði mér
á sínum tíma, hann vinnur í öruggu skjóli í Árnastofnun í Kaupmannahöfn,
að bækur hans hafi fengið góðar viðtökur í Færeyjum. Mér finnast þær líkt
og Dauðans óvissi tími upplagður grundvöllur að kvikmyndahandritum.
Mér sýndist næstum allt í Dauðans óvissa tíma stemma að meira eða minna
leyti nema kannski afhöggni hausinn í ísskápnum í bankaráðsherberginu:
Hann var stílbragð, var það ekki? Og þá vaknar spurningin: Borgar sig að
ýkja í skáldskap af þessu tagi? Eða í stjórnmálabaráttu? Gandí lagði ríka
áherzlu á að ýkja aldrei, þess þarf ekki, sagði hann.
Þráinn: Ég veit ekki. Ég hef verið að horfa á ágæta sjónvarpsseríu sem
heitir „Game of Thrones“ og er skrifuð af mögnuðum fantasíuhöfundi sem
heitir George R.R. Martin. Þar finnst mörgum vera langt gengið í ýktum
lýsingum á fólki og athöfnum þess, einkum í valdabaráttu, og þykkt stungin
tólg. Ég held samt að í raunveruleikanum sé alltaf að finna dæmi þess að
gengið sé að minnsta kosti skrefinu lengra en í skáldskap, hversu ýktur sem
hann er talinn vera. Engum sem ég veit um hefur dottið í hug að dikta upp
fjöldamorðingja með 10 milljón mannslíf á samviskunni, en ég sjálfur hef
náð því að vera samtímamaður Hitlers, Stalíns og Maós, þriggja einstaklinga
sem samanlagt höfðu hátt í 100 milljón mannslíf á samviskunni. Í svona
veröld lifum við og í svona veröld þarf maður að hafa meira hugarflug en ég
hef til að geta byrjað að ýkja illskuna.
Þorvaldur: Fjórar myndir þínar heita Nýtt líf, Dalalíf, Löggulíf og Einka
líf. Finnst þér ekki freistandi að gera eina enn? – Viðskiptalíf. Ekki skortir
efniviðinn.
Þráinn: Ég hef vissulega hugsað til þess að það gæti verið gaman að gera
eina Lífmynd til viðbótar sem snerist þá að hluta til um hið ýkta viðskiptalíf