Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Blaðsíða 119
R ó s i b r ó ð i r
TMM 2014 · 4 119
Ég var búinn að hita vel upp og stóð inni í miðri þvögunni við rásmarkið.
Ég fann að ég var í banastuði og til alls líklegur. Og þá kom ég auga á þá.
Þeir stóðu einhverja 15–20 metra frá mér. Biggi og Víðir héldu á Rósa á milli
sín. Valur var að festa keppnisnúmerið á hann. Svo horfðu þeir allir á mig,
þar sem ég stóð í miðjum hópnum. Ég leit undan og horfði af öllu afli beint
í hnakkann á hlauparanum fyrir framan mig. Það var loksins komið að því,
sagði ég við sjálfan mig, þessu hafði ég beðið eftir og kannski yrði þetta eina
tækifærið sem ég fengi. Ég var staðráðinn í að láta ekki bugast.
Það sem gerðist næst er svolítið erfitt að útskýra, kæra vinkona. Rásskotið
reið af og allur hópurinn komst á hreyfingu. Ég mjakaðist af stað, en um
leið mjakaðist ég út á hlið og þó að það ætti að drepa mig get ég ekki áttað
mig á því hvort það var óvart eða viljandi. Það næsta sem ég vissi var að ég
var kominn með Rósa bróður á bakið. Víðir, Valur og Biggi hlupu meðfram
brautinni nokkra tugi metra og hvöttu Rósa bróður sinn fullum hálsi.
Þetta var allt í lagi til að byrja með. Ég var svo sem vanur að bera þunga
hluti á bakinu, hvort sem það voru Borgundarhólmsklukkur, leðursófar eða
Rósi bróðir. Fyrstu fjórir–fimm kílómetrarnir voru þess vegna ekkert sérlega
erfiðir, en eftir það fór róðurinn að þyngjast verulega. Mér þótti það líka
erfitt hvað Rósi var rogginn. Í hvert sinn sem við hlupum framúr einhverj
um lét hann einhverjar háðsglósur falla, eins og „Eru kókosbollurnar farnar
að síga í?“ eða „Nei, amma mín, hvað ert þú að gera hér?“ Ég gat ekkert gert
annað en brosað afsakandi til þeirra sem fengu skotin og svo hljóp ég áfram.
Rigningin bætti ekki úr skák. Það hafði verið svolítill úði í upphafi
hlaupsins, svo brautin var hál á stöku stað og þar sem ekki var bundið slitlag
varð maður virkilega að gæta sín hvar maður steig niður. Þegar við fórum
framhjá tíu kílómetra markinu var komið úrhelli. Ég var hættur að sjá skýrt
því veðrið stóð beint framan í mig og auk þess var farið að renna stjórnlaust
úr nefinu á mér. En Rósi reyndist vera með einnota ponsjó í vasanum og nú
dró hann það upp og klæddi sig í það í mestu makindum.
Þegar ég sá að tuttugu kílómetrar voru að baki tók ég ákvörðun. Ég myndi
ekki hlaupa maraþon í þetta skipti. Það yrði bara að bíða betri tíma. Það var
auðvitað miklu stærri hópur sem aðeins hafði skráð sig í hálft maraþon og
það var heldur ekkert til að skammast sín fyrir. Síðasta kílómetrann ákvað
ég því að gefa vel í og láta síðan gott heita. Við nálguðumst markið og ég sá
fjórafimm hlaupara á undan mér hlaupa þar í gegn og fagna þessu afreki
sínu. En þegar Rósi bróðir sá að þarna lét stór hópur staðar numið, þá færðist
hann allur í aukana og tók að hrópa af öllum kröftum.
„Hvers konar kellingar eruð þið eiginlega?“ orgaði hann á hina hlauparana.
„Á bara að gefast upp hér, eða hvað? Ha? Hvar er pungurinn á ykkur, strákar?
Ha? Týndist hann í þvotti, eða hvað?“
Ég veit ekki, kæra vinkona, hvað gerðist í höfðinu á mér. Eflaust hef ég
eitthvað hugsað, en því er gjörsamlega stolið úr mér. Það eina sem ég veit er
að ég hljóp í gegnum markið og áfram. Og áfram. Og áfram hljóp ég.