Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Blaðsíða 52
B e r g l j ó t S o f f í a K r i s t j á n s d ó t t i r
52 TMM 2014 · 4
Gestakomur í Sauðlauksdal er margbrotin saga. Hér ætla ég að ræða
dálítið um efni hennar og tengsl þess við veruleika og sögu en drepa því næst
á fáein einkenni hennar og aðferðir sem nýta má við lestur hennar.
II
„Ég get alveg sagt þér það í trúnaði, Eggert minn …“. Þar eð bréfasagan
varð vinsælt skáldsagnaform á 17. og ekki síst 18. öld, einmitt þegar Björn
í Sauðlauksdal var uppi, væri auðvelt að segja að sú væri skýringin á að
Gestakomurnar eru felldar í formgerð hennar, og láta þar við sitja. Þetta væru
tímarnir þegar „hið einkanlega var gert opinbert“ í bréfum;2 Frakkar hefðu
lengi átt Rousseau og sína Júlíu, Englendingar Richardson og Pamelu þannig
að rökrétt væri að Íslendingar eignuðust séra Björn og Gestakomurnar.3
En 18. öldin var líka sú öld sem öðru fremur gat af sér á Vesturlöndum það
borgaralega samfélag sem við höfum setið uppi með síðan. Hún var öld
umbrota þar sem tekist var á um skiptingu auðs og samfélagsstöðu fólks; þar
sem þversagnakennd mót hins gamla og nýja mörkuðu hvaðeina, samfélag,
einstakling og bókmenntir – og umfram allt öldin þegar ýmsir þeir sem áður
voru lítt sýnilegir og fátt heyrðist frá, virtust skyndilega líkamnast og láta að
sér kveða – t.d. konur og tötralýður – þannig að veröldin varð ekki söm eftir.
Og einmitt í því ljósi er vert að skoða Gestakomurnar.
Í sögunni er hið einkanlega og hið opinbera, einstaklingur, umhverfi og
samfélag tengt órofaböndum. Og þá er atburðarásinni á síðustu æviárum
séra Björns lýst á nokkuð annan veg en sagnfræðiheimildir herma. Eftir
því sem best er vitað fluttist hann árið 1782 frá Sauðlauksdal, þar sem hann
hafði auk preststarfa stundað jarðrækt og garðyrkju í hartnær þrjá áratugi
og meðal annars hafið kartöflurækt árið 1759. En þegar aldurinn færðist yfir
virðist hann hafa viljað fá næði til ritstarfa og var þá veitt Setberg í Eyrar
sveit. Þar vann hann m.a. við orðabókina sem við hann er kennd: Lexicon
IslandicoLatinoDanicum.4 Alvarleg veikindi sem orsökuðu ört vaxandi
sjóndepru, gerðu prestskap hans hins vegar endasleppan svo að 1786 lét hann
af embætti. Næsta ár hélt hann til Hafnar til að leita sér lækninga en hafði
ekki erindi sem erfiði. Þá fór hann aftur heim á Snæfellsnes árið 1788 og sat
í sæmd sinni á Setbergi til dauðadags 1794.5
Gestakomurnar hefjast hins vegar þar sem Björn er á nýjan leik í sínum
Sauðlauksdal árið 1788 og rekur fyrir vini sínum Eggerti atburði næstliðinna
ára. Danmerkurvist hans öll hefur markast af þeim tíðindum er hann fékk
jafnskjótt og hann steig á land ytra: Jón Eiríksson konferensráð drekkti sér
í síkinu. Heimkominn situr gamli presturinn á Setbergi með dimmu augna
sinna, og illbærileg vissan um að ekkert bíði hans annað en sídýpri sorti er
mögnuð af öskunni frá Skaftáreldum sem veldur því að fé fellur en menn
ærast og farga sér, rétt eins og konferensráðið í Kaupmannahöfn: