Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Blaðsíða 43
G ö n g u f e r ð i r í h e i m a b y g g ð
TMM 2014 · 4 43
30.01.13
Tveir grænklæddir Sigurðar fylgdu mér úr hlaði upp úr hádegi. Ég hafði séð
þá í draumi nóttina áður. Skáldið klæddist grænni, prjónaðri jakkatreyju
með útprjónuðum blómabekk neðst en engu stroffi. Hinn var í sérlega vel
sniðnum og fallegum grænleitum jakka úr vönduðu ullarefni. Báðir lásu
þeir ljóð enda var þetta á ljóðakvöldi og við sem hlustuðum glöddumst öll
innilega í hjarta okkar. Þannig var stemningin.
Ég ákvað að ganga stóra hringinn í hverfinu en það hafði ég ekki gert
í nokkrar vikur, gott ef ekki fáeina mánuði. Jörð var auð eins og mestan
part þennan vetur, skýjað og hægur vindur, stillt í skjóli. Náttúran var í
vetrarlitum, sinan gulhvít og moldin dökk, lýst upp af grænum mosablettum
hér og hvar. Allt var með kyrrum kjörum og hvert hús og hver steinvala á
sínum stað. Enginn á ferli nema hvað bílar óku hjá.
Þá sló vorinu niður í hausinn á mér. Það var að vísu enn í felum. Ekki farið
að lauma sér í svala goluna og græn grös í janúar bera það ekki með sér. Þess
í stað var vorið allt um lykjandi án þess að sýna sig. Hvít vetrarbirtan titraði
af spenningi en lét ekkert uppi. Fyrirvaralaust helltist yfir mig botnlaust
þakklæti. Í huganum kinkaði ég kolli til hverrar þúfu. Sama hvað gerist þá
má alltaf treysta á vorið.
Ekki fyrr en ég var nærri því komin heim, eftir að ganga yfir hæðina
milli gatna sem enda á holt og kot, framhjá hesthúsahverfinu og Bökkum,
yfir hæðina við Hólmatúnið og meðfram Kasthúsatjörn, ekki fyrr en ég var
komin hálfa leiðina inn götuna heima áttaði ég mig á draumnum. Vorið
kemur tvisvar í ár.
11.02.13
Gekk út Jörfaveginn í suðurátt. Kalt í veðri og róleg gola, auð jörð. Fram
undan voru gullbrydd ský svo skar í augun og handan þeirra var himinninn
ósmekklega beibíblár. Á okkar tímum myndi enginn málari skila honum
svona á strigann, þótt þeir hafi ekki hikað við það fyrr á öldum og skreytt
með svífandi englum í ofanálag.
Á miðjum veginum kroppaði hrafn í fuglshræ, hrökklaðist í burtu þegar
eineygður, silfurgrár bíll kom akandi. Í fjarska heyrðust innilokaðir hundar
geltast á.
Ég beygði í vestur við enda vegarins. Litirnir í skýjunum voru áfram
yfirgengilega ýktir. Appelsínugult og blátt litað gráum, dreifðum strokum,
skúraleiðingar í fjarska, kannski var það snjókoma. Það brast þegar ég steig á
þunnt skæni í hófaförum, handan við varnargarðinn heyrðust þungir dynkir
í öldunum.
(dagsetningu vantar)
1.
Þvottafjallið rís upp af hvítri hillu sem gegnir hlutverki línskáps. Alla vikuna