Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Qupperneq 39
S a m b l a n d a f s æ l u o g k v ö l
TMM 2014 · 4 39
Og ekki varð amma síður hvassyrt þegar hún lýsti aðstæðum þeirrar
stéttar sem kallaðist vinnukonur – en ekki munaði reyndar miklu að þær
gætu talist ambáttir. Því þær voru sendar á Eyrina eða í fiskvinnu og fengu
fyrir það enga viðbót við kaup sitt sem vinnukonur. Húsbændur þeirra hirtu
tímakaupið sem þær fengu fyrir þá vinnu.
Amma tók sem dæmi konu sem lét húsbónda sinn mánaðarlega fá 42
krónur, sem hún vann sér inn í fiski, en kaup hennar vegna þrifa, þvotta og
eldamennsku á heimili hans var 45 krónur. Þegar húsbóndi konunnar dó
sagði hún : „Jæja, þá er karlrassinn loksins dauður!“ Og skellihló.
Amma sagði að þessi kona hefði verið sökuð um kulda og hatur en hún
spurði: „Hver sáði hatursfræinu?“
Já, þær eru sannarlega margar eftirminnilegar, lýsingarnar af harðri
baráttu verkafólks á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar.
Og ég man enn eftir hve sérlega vænt ömmu þótti um vökulögin og
almannatryggingarnar. Hún var mjög hrifin af Haraldi Guðmundssyni sem
átti að hafa sagt, þegar hann barðist fyrir vökulögunum: „Þið lofið sjómenn
ina dauða en kveljið þá lifandi.“
Hún minntist líka oft á lögin um verkamannabústaði. Og mikið þóttu
henni dýrmæt lögin um alþýðutryggingar, sem voru undanfari almanna
trygg inga.
Umræðu um þau fylgdi gjarnan saga um stofnun sjúkrasamlagsins en þá
kom til ömmu kona, sem átti tvö börn, og skammaðist út í sjúkrasamlags
gjaldið sem var tekið af henni.
Nokkru seinna hitti amma konuna aftur og þá sagði hún: „Mikið ósköp sé
ég eftir að hafa skammað þig. Heldurðu ekki að ég hafi lagst í lungnabólgu
og var á spítala í rúma viku og þurfti ekkert að borga.“
Og svo var það sagan um lífsbaráttu ekkju með fjögur ung börn sem þvoði
þvott og þreif skrifstofur. Konan, sem oft var sjúk af þreytu og verkjum, hljóp
einu sinni í skarðið fyrir aðra konu og var fljótari að þvo þvottinn en sú sem
venjulega vann verkið. Frúin í húsinu vildi þá borga henni helmingi minna.
Þessi sama kona þurfti einu sinni að þiggja hjálp af bænum í skamman
tíma. Litlu seinni voru kosningar og þá var konunni meinað að greiða
atkvæði vegna þess að hún hafði þurft að fá aðstoð hjá bænum. Hún sagði
ömmu frá þessu, miður sín af heift. Og þá sá amma í fyrsta sinn það sem hún
hafði áður bara lesið um í Íslendingasögunum. Það var ekki tár sem hraut af
auga konunnar, heldur hagl.
Æðsta takmark verkakvenna
Mér þótti athyglisvert og nokkuð vænt um að lesa í 3o ára afmælisriti
verkakvennafélagsins grein eftir þáverandi forseta ASÍ, Guðgeir Jónsson,
sem fjallaði um afstöðu hans til þess að konur væru hálfdrættingar í launum
á við karla.