Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Side 45
G ö n g u f e r ð i r í h e i m a b y g g ð
TMM 2014 · 4 45
á móti henni með goluna í bakið. Það hafði verið í fréttunum að lóan væri
komin og ég pírði augun á grágulgræn túnin meðfram Norðurnesveginum,
eins og að ef ég kipraði augun nægilega fast gæti ég kreist fram bústna lóu.
Litlar stelpur kölluðu „Júlía!“ og hlupu milli garða við Austurtún. Ólafur var
heima, fáninn blakti við hún.
Á vellinum sunnan megin á hæðinni voru tveir menn í golfi en ég horfði
ekki á þá heldur á rauða fánann á priki í holu sautján svo fallega upplýstan
af sólinni. Ég gekk niður hæðina meðfram hesthúsahverfinu í megnri
hestalykt, í girðingunni við sjóinn voru nokkrir hestar og eitt folald sem
hljóp um og gat ekki verið kyrrt.
Í Hólmatúninu var einhver að grilla og lyktina lagði yfir göngustíginn,
ilmandi, krydduð lykt. Þegar ég gekk framhjá móanum við Jörfaveginn á
leiðinni til baka bar golan með sér daufa angan eins og af rósum.
07.05.13
Sólskin og sterkur vindur. Skínandi og glampandi birta endurkastaðist af
sinunni í móanum. Fuglalífið var í algleymingi og þúfur og tjarnir iðuðu
af lífi. Ég var eins og óboðinn gestur í nýju, fjölmennu samfélagi sem
hafði tekið yfir með skvaldri og gargi. Í móanum við Jörfaveginn var mar
gæsahópur á vinstri hönd og þegar ég gekk fram hjá heyrði ég þær kurra
hástöfum. Sætlega og skært eins og stórar dúfur.
Margæsirnar voru rennilegar, glansandi, dökkgráar, svartar og hvítar.
Þær voru eins og vel til hafðir SuðurEvrópubúar í hópi luralegra norrænna
grágæsa sem við hlið þeirra urðu bæði digrar og ólögulegar. Án þess að ætla
mér það fældi ég allan hópinn.
Fyrr en varði var mér orðið allt of heitt. Loks var vorið komið í raun enda
komið fram í maí, en það hafði verið svo kalt undanfarið að túnin voru varla
farin að grænka. Komin yfir hæðina í hverfinu miðju mætti ég svartklæddri
stelpu, hlaupandi á bleikum skóm, hún másaði þungt. Kona ók kerru með
rauðklæddum tvíburum, ók kerrunni með annarri og leiddi eldri stelpu með
hinni. Við hesthúsin mætti ég annarri konu með tvö börn í kerru.
Á leið til baka eftir Jörfaveginum flaug tjaldurinn syngjandi yfir, viddi
viddi, viddividdi.
14.10.13.
Dagurinn var bjartur og tær. Sólin var farin að lækka á lofti, steinvölurnar á
veginum og þúfurnar í móanum vörpuðu dökkum skuggum. Svanir voru á
beit á grænu grasi og grágæsir vöguðu, dillandi hvítum rössum.
Í gróinni brekku við göngustíginn velti sér lítil stelpa. Mamma hennar
stóð hjá henni, þéttvaxin í brúnni lopapeysu. Um leið og ég gekk fram hjá
benti stelpan upp og til norðurs: „Fluvvél! Fluvvél!“ Mamman tók undir
og glaðvært spjall þeirra fylgdi mér spottakorn. Hljóðheimurinn lifnaði í
logninu, fuglasöngur og bílahljóð skiptust á.