Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Side 46
R a g n a S i g u r ð a r d ó t t i r
46 TMM 2014 · 4
Þegar ég gekk niður brekkuna fram hjá hesthúsahverfinu mættu mér nýút
sprungnir fíflar. Þeir voru eins og eitthvert kjánalegt haustgrín. Eftir að
vorið lét ekki sjá sig og sumarið ekki heldur, sprungu nú fíflarnir út á ný.
Mér datt í hug að rífa þá upp og fara með heim handa kanínunum okkar, en
lét það eiga sig.
Lágt yfir hlíðum Esjunnar dóluðu lítil þokuský og vörpuðu skuggablettum
á blátt fjallið. Loftið var líkt og gler svo tært var það og stillt. Skyndi
ákvörðun fékk mig til að beygja út af göngustígnum í áttina að sjónum við
Bakka. Rétt hjá gamla losunarstaðnum húkti svartur ruslapoki, hálffalinn
í melgresinu við fjöruna. Þegar ég kom nær sá ég að hann var rifinn og úr
gatinu ultu dauðar grágæsir. Ég kærði mig ekki um að grandskoða hræin og
beindi sjónum mínum annað, velti fyrir mér hver hefði drepið gæsirnar og
af hverju hræin væru þarna.
Tíminn nam staðar í logninu, þetta var dagur í kyrrstöðu. Í suðurátt lá
skýjabakki yfir fjöllunum á Reykjanesinu og náði allt til Bláfjalla, lá kyrr,
rólegur þar til allra syðst að hann leystist upp í silfurlitað mistur.
21.10.13
1.
Kaldur vindur og ég hélt augunum hálflokuðum þegar ég gekk út Jörfa
veginn því sólin var svo lágt á lofti. Ég var tímabundin. Gekk fram hjá
áhaldahúsi Garðabæjar og tók eftir því að ljósfjólublái vettlingurinn sem
svo lengi hékk á birkigrein var horfinn. Sveigði fram hjá þurrum hrossaskít
á göngustígnum. Það var ekki frost í jörðu og jarðvegurinn var mjúkur.
Beygði meðfram sjónum til suðvesturs og sá nær strax á klukkunni að ég
þurfti að snúa við. Ég vildi ekki snúa við vafningalaust heldur brölti upp á
grjóthlaðinn varnargarðinn.
Háfjara, og þangbreiðan sem mætti augum mínum kom mér á óvart, þykk
og allt um lykjandi. Stórir steinar risu upp úr, vaxnir síðu, hrokknu þangi
sem féll niður með ávölum útlínum og rann aftur saman við þangbreiðuna.
Fjörulallar. Handan breiðunnar spígsporuðu tveir svanir í fjörunni og einn
synti í flæðarmálinu. Óvænt sýn af landinu undir yfirborði sjávar.
Í garði við húsið næst sjónum héngu nokkur hvít sokkapör á snúru,
í mismunandi stærðum. Í hægri hendi vingsaði ég gráhvítum, mjúkum
fingravettlingum. Skýhnoðrar feyktust yfir efstu hlíðar Esjunnar.
2.
Í dag ruddi jarðýta sér leið þvert yfir ósnortið Gálgahraunið, frá suðvestri til
norðausturs. Hún fletti mosavöxnu hrauninu til hliðar svo brún moldin vall
upp úr sárinu. Vegarstæði framtíðar.