Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Qupperneq 51
TMM 2014 · 4 51
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir
Þegar blindgatan
opnast til allra átta
Um Gestakomur í Sauðlauksdal
I
Ég get alveg sagt þér það í trúnaði, Eggert minn, að aldrei fann ég mig jafnnálægt
almættinu tónandi mínar guðsræður yfir Barðstrendingum, eins og með hendurnar
á kafi í kartöfudrullunni hér við bæinn.1
Það er séra Björn Halldórsson, sem svo kemst að orði í bréfi til vinar síns
og mágs, Eggerts Ólafssonar, í skáldsögu Sölva Björns Sigurðssonar, Dálítill
leiðarvísir um heldri manna eldunaraðferð og GESTAKOMUR Í SAUÐ LAUKS
DAL eður hvernig skal sína þjóð uppreisa úr öskustó. Sagan segir frá síðustu
árunum í lífi Björns og er söguleg skáldsaga sem gerist á 18. öld og bréfasaga.
Átjánda öldin hefur verið meira eða minna í brennidepli í ýmsum
skáldsögum síðustu fimmtán ár eða svo. Nefna má sögu Einars Kárasonar
Norðurljós, einn þráðinn í Hvatt að rúnum Álfrúnar Gunnlaugsdóttur svo
ekki sé talað um sögu Þórunnar Valdimarsdóttur, Snorra á Húsafelli, sem
sagnfræðingar og bókmenntafræðingar geta lengi enn skemmt sér við að
greina ýmist sem sögulega skáldsögu eða sagnfræði með skáldskaparívafi –
þ.e.a.s. ef þeir líta svo á að sagnfræði án slíks ívafs sé til! Ónefnd er þá önnur
nýleg saga sem nýtir sér sendibréfsformið, saga Ófeigs Sigurðssonar, Jón og
hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur
og undirbjó komu hennar og nýrra tíma.
Það er ekki hending ein að tvær sögur, sem segja báðar af klerki á 18. öld,
koma út um líkt leyti, skömmu eftir hrun íslenska fjármálakerfisins. Menn
leitast ekki bara sífellt við að skilja nýjar aðstæður í ljósi annarra sem þeir
þekkja; á viðsjárverðum tímum rifja þeir upp örlög þeirra sem þraukuðu við
illbærileg kjör, og voru jafnvel á stundum dálítið upprifnir og bjartsýnir and
spænis framtíðinni á meðan ekkert benti til annars en að allt færi á versta veg.
Sagan er sá reynslusjóður sem menn hljóta að sækja í þegar þeir reyna að fá
botn í sjálfa sig, aðra og umhverfið; spurningin er hins vegar hvort það er sagan
nær eða fjær, víða sagan eða sú þrönga sem þeir vitja hverju sinni.