Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Side 53
Þ e g a r b l i n d g a t a n o p n a s t t i l a l l r a á t t a
TMM 2014 · 4 53
[…] hér eru allir meira og minna svangir. Þess heldur nærir hungrið bilunina og
egnir fólk gegn sjálfu sér. Á Barðaströndinni einni hafa tvær vinnustúlkur nýlega
týnt sér, önnur í kaldavermsl en hin réð sér bana með hálsskurði. Ég hef heyrt að
ólánsamt unglingsgrey hafi fyrir skömmu kyrkt sjálft sig í axlaböndum sínum, allt
út af hungri og sturlun. (bls. 8)
Það er því ekki að undra að þunglyndi altekur klerk. En þá birtist, sem
stundum fyrr í íslenskri bókmenntasögu, kona með ráð undir rifi hverju.
Rannveig Ólafsdóttir, kona Björns stendur skyndilega inni á gólfi hjá honum
með tvö unglingstetur, og fer þess á leit að hann mennti þau; skili til næstu
kynslóðar þekkingu sinni á grösum. Þar eru þá komnar tvær af þeim þremur
persónum sem fyrirferðarmestar reynast í sögunni auk Björns; sveinninn
Scheving sem er í ölgerðarnámi og „bjartmynnt“ stúlka sem ber nafn Maríu
guðsmóður og er áköf í að nýta náttúruna við matargerð.
Það er ekki áhlaupaverk að hafa hetjuna upp úr þyngslum þegar veröldin
leggst jafnkirfilega á hana og uppgjafaklerkinn á Setbergi. Þá ríður á að
færa henni töfragripi sem heimt geta hana úr höndum trölla. Í Gestakom
unum reynast það tveir konungsnautar sem Björn hefur haft með sér heim
frá Kaupmannahöfn en ekki hirt um síðan. Það eru þó hvorki sverð né öxi
heldur fágæt kartöfluútsæði og matreiðslubókin Urta kostir og kjötríkisins
dægilegustu uppskriftir fyrir heldri manna fjölskyldur. Stúlkan bjartmynnta
stingur uppá að þau haldi fyrir heldrimenn veislu sem af öllum öðrum beri
og heitir því að allt verði gott á ný. Þegar hún hefur ásamt Scheving gert Birni
stórveislur kvöld eftir kvöld upptendrast hann loks og tekur til við að viðra
veisluáformin í bréfum til vina. Við bætist að sitjandi klerkur í Sauðlauksdal
biður hann að leysa sig af meðan hann sigli og ljúki embættisprófi, þannig
að Björn heldur með Maríu og piltinum, sem er að læra að breyta vatni í vín,
aftur í Sauðlauksdal en felur konu sinni umsjón alla á Setbergi. Á leiðinni
vitjar hann Boga Benediktssonar og Hrappseyjarprentsmiðju og gengur frá
boðsbréfum til allra helstu embættismanna landsins; nú skal með hjálp Urta
kostanna undirbúin sú veisla sem þeir einir sitja sem „hafa lærdóminn sem
almúginn ber ekki skyn á“ og „skynja hver leiðin er út úr myrkrinu.“ (23)
Þetta eru í sem stystu máli tildrög þeirra atburða sem Gestakomurnar
segja frekast frá og Björn rekur fyrir Eggerti skáldi; atburðanna sem réðust
af því að hinn blindi fékk sýn og tók að skrifa vini sínum. Eða með orðum
Björns sjálfs:
Eitt skal ég þó segja þér sem er hvati og fögnuður þessara síðbúnu skrifa til þín,
mágur, þú sem átt öll þín bein í hafdjúpinu og fegurstan anda á himnum: sjónleysið
hefur opnað mér nýjan heim þar sem birtan er skærri en í mót nokkurri stjörnu.
(11–12)