Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Page 67
H e t j a þ ú s u n d a n d l i t a o g h ö f u n d u r þ ú s u n d n a f n a
TMM 2014 · 4 67
þessum góðæristímum sveitadýrkunar: „Það er ekki til fallegri staður í heimi
en Reykjavík heiðskýran [sic], sólríkan júnímorgun.“10
Steindór Sigurðsson sendi frá sér nokkrar litlar glæpasögur árið 1932, svo
sem Dularfullu flugvélina, Son hefndarinnar og Leyndardóma Reykjavíkur,
undir höfundarnafninu Valentínus, en synd er að segja að metnaðurinn hafi
plagað þau verk að óþörfu. Sú glæpasaga sem næst nær máli var Allt í lagi í
Reykjavík eftir Ólaf Friðriksson ritstjóra, sem notaði höfundarnafnið Ólafur
við Faxafen. Ólafur hefur verið þokkalega forspár því að bókin greinir frá
óprúttnum glæpamönnum sem einsetja sér að ræna Landsbankann.11 Ekki
höfðu krimmar þess tíma þó hugarflug til að kaupa bankann heldur reyndu
að grafa göng undir Hafnarstræti inn í peningahvelfingu hans. Bókin kom
út árið 1939, sama ár og Basil fursti lét á sér kræla fyrst hérlendis. Basil fursti
var þó ekki eins tiginn og forframaður og nafnið gaf til kynna. Hann kom út
í ódýru prenti á slakan pappír um langt árabil og var það sem sumum þykir
verra, danskur að uppruna. En það vissu kannski fæstir.12
Ráðgátur tengdar Basil vöfðust fyrir mörgum og urðu tilefni ótal
bollalegginga um áratugaskeið. Árið 1984 skrifaði Sigurður G. Valgeirsson,
þá blaðamaður á DV, áhugaverða grein um furstann og ævintýri hans og
lagði m.a. í nokkra rannsóknarvinnu til að reyna að hafa upp á höfundinum.
Í greininni segir meðal annars:
Bragi Kristjónsson [fornbókasali], sem er mörgum bókavinum kunnur, gat engar
ágiskanir haft um uppruna Basils. Hann sagði að bækurnar væru sennilega soðnar
upp úr erlendum bókmenntum. Gengið hefðu sögur einsog að höfundur heftanna
væru Kristmann Guðmundsson eða Ragnar í Smára. Það hefði líka verið talið af
einhverjum að Árni Ólafsson, sá sem gaf út heftin, hefði samið einhver. Hann var