Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Page 96
H a u k u r M á r H e l g a s o n
96 TMM 2014 · 4
ingum og taka undir það sem aðrir sögðu. Ekkert af því sem hann sagði eða
gerði gaf til kynna að hann hefði afstöðu til neins eða þætti eitt skemmtilegra
en annað. Við hlið þeirra tveggja sat Egill sjálfur. Hann fékk ekki oft að vera
með. Það þótti tilefni til í þetta sinn. Sófinn sem þau sátu í var drapplitaður
beis kakí ljósbrúnn eða fölgulleitur. Liturinn hafði aldrei verið færður í orð.
Pullurnar í honum voru snjáðar og í þeim voru brunaför eftir sígarettur því
mamma Egils var nýhætt að reykja. Eignaðist fjögur börn, hætti að reykja og
varð miðill. Kannski var það þess vegna sem þau vildu skipta. Sófinn var ekki
bara notaður, hann var lifaður. En það var ekki þess vegna sem Agli fannst
hann betri en nýju mublurnar. Ekki bara að þær höfðu ekkert að segja. Þó
að sófinn væri jafngamall Agli sjálfum var hann þessum nýju miklu fremri
að gerð. Þetta var sófi frá því áður en Ikea opnaði búð á eyjunni. Hann var
smíðaður. Gervileðurhægindastólnum sem Guð sat í virtist hins vegar hafa
verið sprautað í mót og hann látinn storkna. Í geimnum. Í gervileðurgalaxíu
einhvers staðar milli Vetrarbrautarinnar og Andrómedu.
Sjöunda persónan sem sat við stofuborðið var Pétur Ættarnafn, nýr vinur
pabba Egils, sonur forsætisráðherrans fyrrverandi Guðmundar Ættarnafns,
merkilegur maður, mikilvægur fyrir Hreyfinguna. Maður þarf að sýna
honum virðingu. Og maður segir Hreyfingin með stórum staf. Það hafði
verið ládeyða í Hreyfingunni frá því að formaðurinn og iðnasti kennarinn
var rekinn fyrir að vera fyllibytta og kvennaflagari. Skildist Agli. Hann kom
og gisti hjá þeim fyrir fyrir vestan. Til að halda námskeið. Ætlaði að vera yfir
helgi en var fram að vori. Svo var hvíslað. Börn fá ekki að vita, bara gruna. En
Pétur Ættarnafn. Hann helgaði líf sitt Hreyfingunni. Hann nam skapandi
fræði við háskóla Hreyfingarinnar í Iowa í Bandaríkjunum. Enginn staður
í heiminum var nær uppljómun en Iowa. Nema kannski Indland. Einn dag
inn gætu þau kannski flutt til Iowa. Kannski einn daginn. Þar lærði Pétur
stjörnuspeki. Hann gerði ekki röng vestræn stjörnukort heldur rétt indversk.
Vedísk. Í fartölvu. Sinni eigin fartölvu. Hann átti líka ferðageislaspilara. Því
hann vissi hvað raunverulegur lúxus var. Hann miðlaði. Hann var fyrstur
þeirra til að miðla og kenndi mömmu og pabba Egils það. Og. Eins og pabbi
Egils hafði hann lært sidhi. Jógaflug. Ekki bara lært það. Hann stundaði það.
Hann var ekki bara grænmetisæta heldur þekkti hann líkamsgerðirnar þrjár.
Vata, pitta og kafa. Hann var kafa. Hann borðaði bara það sem kom kafa
líkömum í jafnvægi. Hann þekkti réttan indverskan arkitektúr, hinn upp
runalega vedíska arkitektúr. Á Indlandi og í Iowa unnu óeigingjarnir menn
þrotlaust starf við að túlka hina raunverulegu merkingu hinna fornu vitringa
og koma henni til nútímans. Þannig vissi Pétur að framdyr húsa áttu alltaf
að snúa í norður og að sá sem ætti innsta herbergið í húsi réði þar lögum
og lofum. Egill hafði áhyggjur af því að yngri systkin hans bjuggu í innsta
herbergi íbúðarinnar. Að þau myndu taka völdin af foreldrum hans, að for
eldrar hans hefðu grafið sína eigin gröf með þessari herbergjaskipan. En
vegna þess að íbúðin var í blokk og inngangurinn að henni á stigagangi voru