Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Page 100
100 TMM 2014 · 4
Soffía Bjarnadóttir
Hugleiðing um Antonin
Artaud (1896–1948)
– og leikhús sem þráði að lækna grimmd veruleikans
Í nafni alls sem stendur, nú meira en nokkru sinni, hjarta mínu næst, fagna ég frelsi
Antonins Artaud, í heimi þar sem frelsið sjálft þarfnast endurfæðingar. Burt séð
frá öllum veraldlegum afneitunum, legg ég traust mitt á hinn undraverða Antonin
Artaud. Ég hylli Antonin Artaud sem af ástríðu og hetjuskap hefur snúið baki við öllu
sem veldur því að við lifum lífinu sem látin værum.
André Breton1
1. Láttu tár mín fylgja þér
Í bréfi til vinar síns, Jean Paulhan, sem dagsett er 25. janúar árið 1936,
skrifar Artaud að hann sé búinn að finna titil við hæfi á bók sína: Leikhúsið
og tvífari þess; því ef leikhúsið er tvífari lífsins, þá er lífið tvífari hins sanna
leikhúss.2 Listin er ekki endurspeglun heldur raunveruleg reynsla. Hún
leitar sannleika í skynjun handan hugarflugs, samkvæmt Artaud. Hann setti
samansemmerki milli reynslu af list og reynslu af trú og leit á leikhúsið sem
mögulegan stað til að skynja, skilja og jafn vel lækna grimmd veruleikans.
Grundvallarhugmynd Antonins Artaud var að bylta vestrænu leikhúsi,
og þá fyrst og fremst hefðum natúralismans. Hann reis upp gegn ríkjandi
leikhúshefð eins og fleiri leikhúsfrömuðir á fyrri hluta 20. aldar, vildi rífa
ríkjandi leikhús niður sem hann taldi hafa gleymt hlutverki sínu. Hann vildi
þurrka út hefðina og tók það sérstaklega fram að það væri ekki hlutverk
leikhússins né eðli þess að endurspegla. Artaud snerist gegn fastmótuðum
hugmyndum og grónum leikhúshefðum en endurnýjaði um leið gamlar
hugmyndir, til að mynda hvað varðar katarsis. Hann snéri baki við frum
spekinni líkt og Friedrich Nietzsche og lagði áherslu á einfalda merkingu
andlegra gilda. Artaud var að öllum líkindum undir miklum áhrifum frá
fyrstu verkum Nietzsche, þar sem listrænu innsæi er hampað á kostnað
skynseminnar því einungis listin hafi aðgang að hinum leyndu víddum til
verunnar.3 Orð Zaraþústra um sköpunaraflið og veg skapandans í verkinu
Svo mælti Zaraþústra (1893–5) leiða hugann að Artaud: