Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Síða 101
H u g l e i ð i n g u m A n t o n i n A r t a u d
TMM 2014 · 4 101
Bróðir minn, farðu með ást þína ásamt sköpunarafli þínu inn í einsemdina; og rétt
lætið mun löngu síðar koma haltrandi á eftir þér.
Láttu tár mín fylgja þér inn í einsemd þína, bróðir minn. Ég elska þann sem vill
skapa eitthvað ofar sjálfum sér og ferst við þá iðju. –
Svo mælti Zaraþústra.4
Raunveruleiki leikhússins er allt annar en raunveruleikinn utan þess að mati
Artauda og því er endurspeglunin út í hött. Í þessu samhengi beinir hann
fyrst sjónum að sirkusnum og veröld hans, þar sem mörgum listformum er
blandað saman og þátttaka áhorfenda er mikilvæg í sköpun fantasíunnar. Til
að byrja með vildi hann að leikhúsið næði til fjöldans og finna leiðir til að
leiklistin væri skiljanleg öllum. Það varð þó ekki raunin í leikhúsi Artauds,
þrátt fyrir víðtæka arfleifð þessa leikhúslistamanns, skálds og kvikmynda
leikara.
2. Tragískur listamaður
Artaud var átakanlegur hugsuður og listamaður, súrrealisti sem hafði djúpa
ástríðu fyrir leikhúsi, líkamstungumáli og menningu sem hluta af lífinu
sjálfu. Tengsl lífs og listar voru honum hugleikin og trúði hann að listin hefði
möguleika á að koma af stað þroskaferli sem losaði fólk úr viðjum siðmenn
ingar. Antonin Artaud fæddist í Marseille í Suður Frakklandi 4. septem
ber 1896 og var af grískfrönskum ættum. Í æsku er honum lýst sem mjög
listrænu barni. Hann fékk heilahimnubólgu sem barn og þjáðist eftir það
af taugakippum að eigin sögn og byrjaði að stama um sex ára aldur vegna
þessa. Um 18 ára aldur veikist hann af alvarlegu þunglyndi og í kjölfar þess
er hann sendur á geðsjúkrahús, en veikindin hrjáðu hann allt til dauðadags.
Árið 1921 kemur geðlæknir hans, Edouard Toulouse, honum í kynni
við leikhóp í París, Théatre de l’æuvre, sem var meðal annars þekktur fyrir
sýningu sína á Bubba kóngi (Ubu Roi) eftir forsúrrealistann Alfred Jarry frá
1896. Á svipuðum tíma kynnist hann Génica Athanasiou sem var leikkona
frá Rúmeníu. Þau eiga í ástarsambandi, búa sundur og saman næstu sex
árin. Á árunum 1922–24 lék Artaud í mörgum leiksýningum, þar á meðal
Parísarfrumsýningu á verki Luigi Pirandello, Sex persónur leita höfundar.5
Artaud var upphaflega hluti af hinni súrrealísku hreyfingu með André
Breton í fararbroddi, sem kom með sína fyrsta stefnuyfirlýsingu árið 1924.
Artaud sinnaðist síðar við hreyfinguna og sagði skilið við hana. Á þessum
árum gefur Artaud út ljóð og aðra texta og leikur í mörgum leiksýningum og
kvikmyndum. Hann stofnar svo sjálfur leikhús árið 1926 ásamt Roger Vitrac
og Robert Aron. Leikhúsið nefnir hann eftir fyrirmynd sinni – Alfred Jarry.
Í Leikhúsi Alfreds Jarry voru sýnd verk eftir Vitrac og Artaud en einnig
Draumleikur eftir August Strindberg. Í nýlegri bók um leikhús nútímans
bendir Trausti Ólafsson á að það megi jafnvel rekja hugmyndir Artauds