Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Síða 8
A n d r i S n æ r M a g n a s o n
8 TMM 2018 · 3
VII
Dómarinn fór að lögum eins og dómarar gera. Og þegar fólki er mætt af slíkri
hörku, af hverju ekki að brenna helvítis vinnuvélina? Og þegar hún er brennd
og milljarðar eru í húfi, af hverju þá ekki að skjóta helvítis mótmælandann?
Á síðasta ári voru reyndar 200 umhverfisverndarsinnar myrtir, samkvæmt
fréttum, fyrir að standa í vegi fyrir stórframkvæmdum. Kannski er hitastigið
það sama hér og annarsstaðar. Í fréttum er Tómas læknir á leið í ,,ljónagryfj-
una“ á Ísafirði. Einhverskonar tilvísun um að líf hans eða limir geti verið í
hættu. Af hverju er það talið sjálfsagt að einhver geti verið í lífshættu fyrir
að hafa skoðun á fossum á Íslandi? Þar sem 95% orkunnar fer á kostnaðar-
verði til stóriðju og næstu virkjunarkostir eru fyrir Bitcoin og kolabrennandi
kísilver á Bakka eða Helguvík.
Hvað á að gera við svona málefni sem maður fær á heilann? Á að færa það
af leiksviði veruleikans og búa til bók, kvikmynd, ljóð, leikrit, lag, og hvernig
ljóð leikrit lag? Hvernig á að setja hjartans mál í búning? Er hægt að skrifa
um það sem skiptir mann máli? Hversu mörg fordæmi höfum við í íslenskri
list um slík verk? Atómstöðin eftir Laxness. Hafið. Þau eru ekki sérlega mörg,
verkin. Má list ekki fjalla um það sem skiptir máli?
VIII Jón Viðar Jónsson á Facebook
„Vond mynd – afar vond. Hún er svo löðrandi í pólitískum rétttrúnaði um
umhverfisvernd, ættleiðingu barna, illa meðferð á útlendingum og fleira þess
háttar að ég man varla eftir öðru eins úr íslenskri bíómynd. Aðalpersónan er
einhvers konar tvískiptingur, Halldóra Geirharðsdóttir leikur báða partana:
annar er Súpermann (afsakið Súperkona) sem býr í 101 R og stundar terror-
isma í þágu umhverfisverndar, hinn er jógi sem trúir á frið á jörðu eins og
hipparnir; í lok myndarinnar fallast þessir partar í faðma og ganga upp í ein-
hverju sem ég geri ráð fyrir að eigi að vera æðra vitundarstig, ímynd siðferðis-
legrar fullkomnunar hér á jörð – eða sú er sýnilega tilætlun Benedikts. Svo
leikur Jóhann Sigurðarson bónda nokkurn sem er fulltrúi hinnar heilsteyptu,
hjartahreinu alþýðu sem býr að sjálfsögðu úti á landi; en það höfum við nú
vitað allt frá því Halldór Laxness skrifaði Atómstöðina. […] Ef Benedikt er
hættur að vinna í leikhúsi til þess að gera svona naívan sentimentalisma þá
er verr farið en heima setið hjá honum.“
Þetta er einmitt dómurinn sem bókin sem ég var með í höfðinu fékk áður en
ég skrifaði Draumalandið. Hvernig á að vefa svona mál inn í skáldverk? Ég
fann ekki flötinn fyrir skáldverk.
TMM_3_2018.indd 8 23.8.2018 14:19