Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Page 54
S i g u r ð u r S k ú l a s o n
54 TMM 2018 · 3
Að lokum
Hér að framan hef ég fyrst og fremst sett fram hugleiðingar um formið á
leikritum Shakespeares frekar en inntak þeirra. Kannski er það vegna þess
að ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að inntakið sé forminu æðra. Að
formið komi til sem afleiðing af meiningu og taki mið af henni. En allt er
breytingum undirorpið. Með því að skoða betur formið á texta Shakespeares
birast nýir fletir. Formið skiptir meira máli en ég hef viljað vera láta. Peter
Hall gengur svo langt að segja að fyrst komi formið og síðan tilfinningin.
Hvað sem því líður er óhætt að segja að stakhendan sé sá þáttur í leikritum
Shakespeares sem mikilvægast er að leikarinn nái tökum á og sem leikarinn
þarf að fá hjálp frá!
Að leika Shakespeare er einhver besta mögulega þjálfun leikara sem um
getur. Ekki er til betri leið til að reyna á vitsmuni hans, líkamlega færni,
öndun, rödd, og hæfileika til að halda uppi sambandi við áhorfendur en sú
að leika Shakespeare. Shakespeare er eins og ólympískur háskóli í leiklist,
segir Peter Hall.
Í texta Shakespeares eru ævinlega fólgnir óteljandi möguleikar og oft
birtast nýir á hverri æfingu. Þegar við förum að vinna rækilega í textanum
komumst við að því að vísbendingarnar þar eru miklu fleiri og rista mun
dýpra en blasir við í fyrstu. Og þó að möguleikarnir séu óteljandi og álita-
málin mörg getum við aðeins greint hismið frá kjarnanum með því að
kafa rækilega ofan í textann og bragarháttinn. Ef við hunsum hinar ýmsu
bendingar í textanum er nokkuð ljóst að ætlun Shakespeares fer forgörðum
eða verður brengluð. Shakespeare er textinn sem hann reit. Ef við viljum láta
hann njóta sannmælis verðum við því að leita að þeim vísbendingum sem
hann lætur okkur í té og kanna þær til fulls. Ef leikarinn gerir það kemst
hann að því að hann nýtur leiðsagnar höfundarins sjálfs.
Slakur hugur er skapandi hugur. Ef leikarar hvíla vel í hlutverkum sínum,
ef kringumstæður eru réttar og ef þeir finna orðin fersk um leið og þeir segja
þau, þá eru þeir með fast land undir fótum.
Hér skiptir sköpum eins og ævinlega að gera orðin að sínum.
Gleymum þá ekki þeim tilmælum sem Shakespeare sjálfur leggur í munn
Hamlets:
hafðu dómgreind sjálfs þín að leiðbeinanda!
TMM_3_2018.indd 54 23.8.2018 14:19