Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Side 90
H a l l d ó r G u ð m u n d s s o n
90 TMM 2018 · 3
eldri eða segja ungum krökkum frá ævintýrum jafnaldra þeirra í Ólátagarði;
hún skrifar án allrar tilgerðar og stæla og allt virðist einfalt og ljóst en samt
búa einhverjir óútskýrðir töfrar í sagnamennskunni, einsog allir þeir hafa
fundið sem hafa lesið bækur hennar upphátt fyrir börn. Af öllum mistökum
sænsku akademíunnar sem nú eru mjög til umræðu eru þau sýnu stærst frá
sjónarhorni bókmenntanna að hafa aldrei veitt henni Nóbelsverðlaunin.
Nú eru meira en þrjátíu ár liðin frá þessum stutta samfundi okkar, og ekki
ætla ég að þykjast hafa þekkt hana og gæti ekki einu sinni lýst útliti hennar
þennan dag án þess að rugla því saman við allar þær myndir sem ég hef séð
af henni síðan, en hún virkaði á mig einsog texti hennar, greip mig frá fyrstu
málsgrein, skörp og írónísk hvað sem allri vinsemd leið og þegar við bættist
sterk útgeislun hennar sem persónu er ekki nema von manni hafi liðið einsog
litlum dreng hjá stórum sagnameistara.
Að loknu kaffistofuspjalli fórum við yfir í skrifstofu mína og hún leit yfir
hillur af útgáfubókum Máls og menningar. Einhvern veginn fannst mér
ég þurfa að sýna henni nýlegar sænskar skáldsögur sem þar höfðu komið
út og báru vitni um gott hjartalag og samfélagslega hugsun og gott ef ekki
sálfræðimenntun höfunda sinna og eru nú að mestu gleymdar, ég nefni PC
Jersild sem dæmi um tískuhöfund þessara ára. Astrid Lindgren sagði ekkert
á meðan á þessari sýningu minni stóð, en hélt áfram að skima um hillur
og skápa, uns hún greip allt í einu litla og yfirlætislausa bók úr skápnum,
Viktoríu eftir Knut Hamsun í þýðingu Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi,
sem MM hafði þá nýlega endurútgefið, kannski fallegustu ástarsögu Norður-
landa. Hún handlék bókina og svo horfði hún á mig, með tvírætt bros í
augum (því manneskja einsog Astrid Lindgren glottir ekki) og sagði: „Mikið
er gott að sjá að þið skulið líka gefa út bókmenntir.“ Ég held að útgáfustefna
Máls og menningar hafi ekki fengið harðari áfellisdóm í minni tíð.
En saga Hamsuns, sem kom fyrst út þegar Astrid Lindgren var fimm ára,
hreyfði við henni og hún fór að tala um þær bækur sem hún las ung og áttu
sinn þátt í að gera hana að þeim höfundi sem hún varð. Í Jólaóratóríu Görans
Tunström er ógleymanlegur kafli þar sem aðalpersónan Sidner, átján ára
ungur, heimsækir skáldkonuna Selmu Lagerlöf aldraða. Hún þarf á hjálp
hans að halda við að skera uppúr bókum sem henni hafa verið sendar svo
höfundarnir haldi að hún hafi reynt að lesa þær. Bækurnar eru teknar úr hillu
og Selma lætur orð falla um höfundana. Nú leið mér einsog ég væri staddur
í þessari sögu sem jafnframt var ein fyrsta erlenda skáldsagan sem kom út í
minni tíð hjá MM. Því aðallega var Selma að segja Sidner frá því hvernig það
er að skrifa bók: „Það er eins og að neyða sjálfan sig yfir eyðimörk: langar
vegalengdir án minnsta vatnsdropa, hvergi tré til að hvílast undir. En svo
kemur að vin: þar flóir málið, þar opnast sérhvert lauf, allt vill verða að skáld-
skap“ (þýðing Þórarins Eldjárns).
Frá skrifstofunni héldum við niður á efstu hæð bókabúðarinnar með
erlendu bókunum, og Astrid hélt áfram að grípa bækur sem henni þótti eitt-
TMM_3_2018.indd 90 23.8.2018 14:19