Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Side 3
VERA KnÚTSDóTTIR
8
má bæta við að glæpasagan sem kom á eftir, Brakið, skírskotar einnig augljós-
lega til efnahagskreppunnar.3 Vísanir í hrunið þjóna þeim tilgangi að ramma
sögurnar inn í kaldan íslenskan veruleika sem, eins og Úlfhildur segir, myndar
andstæðu við hrollvekjuleg og yfirnáttúruleg þemu á borð við drauga og reim-
leika.4 Hér nefni ég þetta tvennt, hrun og reimleika, sem andstæður, en markmið
greiningarinnar á eftir er að leiða í ljós hvernig þetta tvennt kallast á og tengist.
Þá fjallar Kristín Eiríksdóttir sjálf um hrunþátt verksins Hvítfeld: Fjölskyldusaga, í
viðtali við Þorgerði E. Sigurðardóttur í Víðsjá í nóvember 2012. Hún ræðir nánar
tiltekið hvernig hún hafi ákveðið að skrifa fjölskyldusögu því fjölskyldan birtist
sem táknmynd samfélagsins í bókmenntum, og hvernig lygasýki og ímyndar-
sköpun aðalpersónunnar Jennu skírskotar beinlínis í hugmyndina um ímynd Ís-
lands andspænis sameiginlegri sjálfsmynd þjóðar. Kristín segir:
Ég tók eftir því í allri umræðu eftir hrunið að þá var eins og allir væru
í geðshræringu að finna nýja ímynd fyrir Ísland en ekki að reyna að
horfast í augu við það sem hafði gerst og reyna svona að huga að
sjálfsmyndinni. Og þá fór ég að hugsa kannski er engin sjálfsmynd.
Það er ástand sem sögumaðurinn [aðalpersónan Jenna] þekkir mjög
vel. Hún er í rauninni ekki með neina sjálfsmynd og þess vegna þarf
hún stöðugt að vera að búa til ímynd.5
Þessar hugmyndir um sjálfsmynd og sjálfsmyndarleysi skírskota til fræðilegrar
umræðu um atburði fjármálahrunsins; hvernig íslenskir fræðimenn á sviði
hug- og félagsvísinda hafa skilgreint hrunið sem sameiginlegt áfall þjóðar sem
afhjúpaði ímyndunarsköpun sem byggði á blekkingu og leiddi til minnis- og
sjálfsmyndarkrísu á hinu sameiginlega opinbera sviði.6 Áður en ég greini nánar
3 Úlfhildur Dagsdóttir, „Ég man þig“, Bókmenntavefurinn, nóvember 2010, sótt 1. maí 2023
af https://bokmenntaborgin.is/bokmenntavefur/bokmenntaumfjollun/eg-man-thig-2;
Yrsa Sigurðardóttir, Horfðu á mig, Reykjavík: Veröld, 2009; Ég man þig, Reykjavík: Veröld,
2010; Brakið, Reykjavík: Veröld, 2011.
4 Úlfhildur Dagsdóttir, sama heimild.
5 Kristín Eiríksdóttir ræðir við Þorgerði E. Sigurðardóttur í Víðsjá á RÚV, 26. nóvember
2012, sótt 25. október 2022 af https://www.ruv.is/frett/hvitfeld-kristin-eiriksdottir.
6 Sem dæmi má nefna hvernig Valur Ingimundarson ræðir að Íslendingar hafi yfirleitt
tekið á sig hlutverk fórnarlambs í alþjóðlegum samskiptum en við hrunið breytist sú
staða: „,Fyrsta heims ríki‘ í ‚þriðja heims stöðu‘“, Morgunblaðið, 22. nóvember 2009,
sótt 29. mars 2023 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1311272/. Kristín Lofts-
dóttir skrifar um hvernig hrunið skekur þá glæstu ímynd sem Íslendingar hafa skapað
sér á alþjóðagrundvelli: „Kjarnmesta fólkið í heimi. Þrástef íslenskrar þjóðernishyggju í
gegnum lýðveldisbaráttu, útrás og kreppu“, Ritið 2-3/2009, bls. 113–139.