Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 183
FInnuR DEllSén
188
gera tilraun til að svara spurningunni – til að útskýra hvað í slagorðinu felst eða
ætti að felast – með því að rökstyðja tilteknar afstöður til þessara álitamála.
Með þessu vonast ég til að komu þrennu til leiðar. Í fyrsta lagi er ég smeykur
um að hugmyndin um að fræðin séu fyrir okkur öll sé eða geti orðið að dauðri
kreddu, að einhverju sem við játum öll í orði kveðnu en hefur svo lítil sem engin
áhrif á líf okkar og störf. Eins og Róbert Haraldsson hefur gert vel grein fyrir
getur hin dauða kredda oft virkað sem skálkaskjól fyrir hugsun og hegðun sem
við ættum að vera löngu búin að gefa upp á bátinn.3 Með því að draga fram
mögulegar forsendur hugmyndarinnar um að fræðin séu fyrir okkur öll, og ræða
þær með gagnrýnum hætti, vonast ég til að stuðla að því að halda henni lifandi
eða vekja hana aftur til lífsins.
Annað markmið mitt með því að velta upp þessum álitamálum er að við
áttum okkur betur á því hvaða praktísku afleiðingar það ætti að hafa að fræðin séu
fyrir okkur öll. Hvernig ættum við eiginlega að stunda og skipuleggja fræðastörf
ef við tökum þessa hugmynd alvarlega og reynum að fylgja henni eftir frá degi
til dags? Ætti fræðafólk til dæmis að leggja meiri áherslu á að miðla rannsóknar-
niðurstöðum sínum til almennings en það gerir nú þegar? Ætti fræðafólk að velja
sér viðfangsefni, og jafnvel rannsóknaraðferðir, út frá öðrum viðmiðum en það
gerir nú? Til að svara slíkum spurningum þurfum við bersýnilega fyrst að átta
okkur betur á því hvað felst í sjálfri hugmyndinni um að fræðin séu fyrir okkur öll.
Í þriðja og síðasta lagi er mér nánast skylt að taka fram – þó ekki væri nema
samkvæmisins vegna – að það að dýpka skilning okkar á hugmyndum af þessu
tagi með því að kryfja til mergjar hinar heimspekilegu undirstöður þeirra hefur
að mínu mati ákveðið gildi í sjálfu sér.4 Einkum hefur það gildi í sjálfu sér að átta
sig betur á því hver sé eiginlega tilgangur fræðastarfs, það er vísindalegra og aka-
demískra rannsókna, þessarar starfsemi sem við eyðum tíma (sumra) og pening-
um (allra) í að ástunda. Með því að grafast fyrir um það fyrir hverja fræðin eru
erum við um leið að varpa ljósi á sjálfan tilgang þeirra og þar með réttlætinguna
fyrir því að ástunda þau.
2. Ávextir fræðanna
Snúum okkar þá að meginefninu, nefnilega því hvernig beri að skilja slagorðið
um að fræðin séu fyrir okkur öll. Við fyrstu sýn er eðlilegast að skilja þetta sem
svo að fræðin geti af sér tilteknar afurðir sem beri að dreifa til okkar allra. Þetta
3 Róbert Haraldsson, Tveggja manna tal, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2001, hér
einkum bls. 15–36.
4 ég mun gera betur grein fyrir því hvað í því felst að hafa gildi í sjálfu sér seinna í grein-
inni; sjá §3.