Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 11
VERA KnÚTSDóTTIR
16
látna mann sem óvin þess sem lifir. Þess vegna eru draugar skilgreindir á nei-
kvæðan hátt og sem hættulegar verur.29
Í hrollvekju Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, verður draugurinn að óvini,
hættulegri veru sem sögupersónum stafar ógn af. Í Hvítfeld: fjölskyldusaga eftir
Kristínu Eiríksdóttur, birtist dauðinn með öðrum hætti, þegar yngsta dóttir
fjölskyldunnar fellur skyndilega frá, sem kallar eftir ákveðnum viðbrögðum hjá
öðrum fjölskyldumeðlimum. Áherslan á dauðann og dauða líkama, sem og tengsl
hugtaksins við hugmyndina um heimili, ramma hið reimda hús sem miðpunkt hins
ókennilega. Daisy Connan skrifar enn fremur að hugtakið tjái ókennilega um-
breytingu sem verður á heimilinu: „við gætum litið á hið ókennilega sem spill-
ingu heimilis, sem það augnablik þegar við skyndilega greinum framandleika
hins kunnuglega, áður þægilega umhverfis.“30 Heimili sem er reimt og ásótt
af draugum sýnir hvernig staður, sem yfirleitt er tengdur öryggi og hlýju, um-
breytist í andstæðu sína, verður ógnvekjandi og vinnur gegn íbúum rýmisins.31 Í
sögunum sem hér er fjallað um eru reimd hús miðlæg svið frásagnarinnar; húsið
í Ég man þig verður reimt vegna nærveru draugsins, en fjölskylduheimilið í Hvítfeld
einkennist af draugagangi vegna minninga og leyndarmála sem eru niðurbæld
og óuppgerð.
Rými og staðsetning gegna lykilhlutverki í fagurfræði hins ókennilega, en
reimleikar sýna hvernig minningar, og oft trámatískar minningar, skjóta rótum
í rými, en yfirleitt á draugagangur upptök sín í trámatískri minningu sem ekki
hefur verið tekist á við heldur verið niðurbæld.32 Hið ókennilega í formi reim-
leika dregur enn fremur fram tengsl á milli heimilisins og sjálfsverunnar sem þar
býr, en draugagangur á heimilinu táknar oft truflun í sjálfinu. Eins og Connan
29 Sama heimild, bls. 220.
30 „we could view the uncanny as a contamination of home, as a moment when we sud-
denly perceive the strangeness of familiar, previously comfortable environments.“ Daisy
Connan, Subjects Not-at-home: Forms of the Uncanny in the Contemporary French Novel Emmanuel
Carrère, Marie NDiaye, Eugène Savitzkaya, Amsterdam og new York: Rodopi, 2010, bls. 31.
Þýðing mín.
31 Sigrún Margrét Guðmundsdóttir hefur skrifar um reimleikahúsið í kvikmyndum og segir
meðal annars: „Reimleikahús eru grafreitir gotneskra leyndarmála sem ekki má
ræða, en jafnframt eru þau staðir þar sem leyndarmálin lifna við – og ganga
aftur.“ „„Tveggja hæða hús á besta stað í bænum“ Um Húsið eftir Egil Eðvarðsson“, Ritið,
2/2019, bls. 135–172, hér bls. 136.
32 Trámatísk minning (e. traumatic memory) byggir á rofi sem verður í minni vegna eiginleika
atburðarins, áfallsins sem því veldur að ekki er hægt að muna hann eða rifja hann upp.
Tráma byggir á aporíunni eða þversögninni í að vilja segja frá atburðinum en geta það
ekki. Sjá umfjöllun um tráma og trámatískar minningar í Lucy Bond og Stef Craps,
Trauma, London og new York: Routledge, 2020.