Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 97
STEINDóR J. ERLINGSSON
102
Marína tilheyrir hópi skálda og rithöfunda sem bókstaflega hafa haldið í mér
lífinu undanfarin misseri, á meðan mjög erfið veikindi héldu mér nánast í heljar-
greipum. Í áraraðir kom leitin að „vísindalegum“ lausnum á vandamálum sem
á mig herja í veg fyrir að augu mín opnuðust fyrir lækningamætti skáldsagna
og ljóða. Nú er það liðin tíð. Þótt innihald ritverkanna sem ég les sé á stundum
þrúgandi getur falist gríðarleg geðhreinsun í slíkum lestri. Í þessum hópi er skáld-
sagan Maður án eiginleika, meistaraverk austurríska rithöfundarins Roberts Musil
(1880–1942). Sögusvið bókarinnar er Vín árið 1913 og hverfist hún í kringum
vísindamanninn Ulrich og tengslanet hans. Á sama stalli sitja stórbrotnir ljóða-
bálkar rússneska (sovéska) skáldsins Önnu Akhmatova (1889–1966), Sálumessa:
Ljóð 1935-1940, óður Önnu til fórnarlamba hreinsana Stalíns, og Ljóð án hetju
(1940–1961), hugleiðing hennar um veröld sem var.10 Að endingu er rétt að geta
Steppuúlfsins, skáldsögu þýska rithöfundarins Hermanns Hesse (1877–1962), sem
bókstaflega opnaði augu mín fyrir mögulegum leiðum út úr öngstrætinu. Ekki
skemmir heldur fyrir að söguhetja bókarinnar, Harry Haller, höfðar mjög sterkt
til mín. Auk þess að hafa verið nálægt mér í aldri þegar ég las bókina, hefur
Haller, líkt og ég, lítið álit á dægurtónlist, en brennandi áhuga á bókum, klassískri
tónlist og er umfram allt heltekinn af myrkri lífsins.
Í því sem á eftir fer ætla ég að greina frá baráttu minni við sjálfsvígshugsanir
og aðrar afleiðingar eitursins sem ég innbyrti í Eþíópíu með því að lýsa síðkvöldi
og nótt þar sem ég sogast smátt og smátt ofan í hyldýpi dauðahvatarinnar. Ég
hef því miður átt ótal svona stundir en er svo lánsamur að sálartetur mitt er enn
hetja, svo ég leyfi mér að vísa í orðspjót Marínu.
*
Ég ligg andvaka og bylti mér í rúminu. Ekki í fyrsta sinn. Birtan frá götuljósunum
skín í gegnum rimlatjöldin og myndar hallandi línur, sem bera við hvítan vegginn
og myndir af börnunum þremur. Við hlið mér liggur eiginkonan og steinsefur.
Sama á við um Snúlla, eineygða gulbröndótta köttinn okkar, sem sefur alltaf þétt
upp við betri helminginn. Þessi nánu tengsl kveikja stundum innra með mér lítil-
mannlega tilfinningu, öfund. Ég fyllist einnig vanmáttarkennd þegar ég hugleiði
getu þeirra til þess að leggjast á koddann og sofna nánast samstundis. Það hef
ég sjaldan upplifað í þau tæplega 30 ár sem ég hef sofið við hlið eiginkonunnar,
enda líður einatt talsverður tími þangað til ég næ að festa svefn.11 Fram að þeirri
10 Anna Akhmatova, „Sálumessa“, Ingibjörg Haraldsdóttir þýddi, Tímarit Máls og menningar,
4/1998, bls. 17–25. Anna Akhmatova, Selected Poems, Richard Mckane þýddi, Hexham:
Bloodaxe Books, 2016, 289–314.
11 Í ljóðinu „Misskipting“ slær Gyrðir Elíasson skáld og rithöfundur á sömu strengi: „Hún