Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Side 138
SAMlÍðAN Og SAMKENND
143
En siðblindingi myndi gera þetta fyrir mun minna. Ef hann langaði til þess
að kyrkja kött, gæti hann gert það ókeypis – svo lengi sem enginn væri að horfa.
Hann myndi örugglega vera nægilega gáfaður til þess að átta sig á því að það
kæmi fólki úr jafnvægi og að útskúfunin og refsingin sem fylgdi í kjölfarið kæmi í
veg fyrir að hann næði fram öðrum markmiðum sínum. Andúðin sem venjulegt
fólk hefur á því að kyrkja kött væri einfaldlega ekki til staðar.
Margar skáldsögur, kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir draga upp mynd af
siðblindingja sem er að mörgu leyti betri en við hin, ómótstæðilegur, þokkafullur
og nýtur velgengni líkt og mannætugeðlæknirinn Hannibal Lecter eða hinn
elskulegi raðmorðingi Dexter Morgan. Sumir sálfræðingar og félagsfræðingar
telja að siðblinda geti verið eftirsóknarverður eiginleiki í viðskiptum og stjórn-
málum og að þess vegna sé of mikið um siðblindueinkenni hjá fólki sem vegni
vel.15
Ef þetta væri raunin væri það ráðgáta. Ef siðferðilegar tilfinningar okkar
þróast með hliðsjón af náttúruvali, þá ætti það ekki að vera með þeim hætti að
maður þrifist vel án þeirra. Og í raun er hinn farsæli siðblindingi líklega undan-
tekningin. Siðblindingjar hafa ákveðnar takmarkanir. Sumar þeirra eru snúnar.
Sálfræðingurinn Abigail Marsh og samstarfsmenn hennar hafa komist að því að
siðblindingjar eru sérstaklega ónæmir fyrir tjáningu á ótta. Venjulegt fólk ber
kennsl á ótta og nálgast hann líkt og hann sé neyðarmerki en siðblindingjar eiga
erfitt með að skynja hann, hvað þá bregðast við honum á viðeigandi hátt. Marsh
segir sögu af siðblindingja sem var rannsakaður með myndasyrpum en honum
mistókst aftur og aftur að bera kennsl á ótta í svipbrigðum þar til hann að lokum
fann út úr því: „Þetta er svipurinn sem fólk setur upp rétt áður en ég sting það.“16
Annað sem skortir skiptir meira máli. Vöntunin á siðferðilegum kenndum
yfirhöfuð, og sérstaklega skorturinn á virðingu fyrir öðrum, gæti verið það sem
verður siðblindingjanum að falli. Við sem erum ekki siðblind erum stöðugt að
leggja mat hvert á annað, við leitum að góðvild og skömm og sambærilegum
hlutum og við notum þær upplýsingar til þess að ákveða hverjum við ættum að
treysta, hverjum við ættum að tengjast. Siðblindinginn verður að þykjast vera
einn af okkur. En það er erfitt. Það er erfitt að þvinga sjálfan sig til þess að fara
eftir siðferðisreglum aðeins vegna þess að skynsamlegt mat segir þér hvers er
ætlast til af þér. Ef þig langar til þess að kyrkja köttinn þá áttu í baráttu með að
halda aftur af þér ef það er einungis vegna þess að það er illa séð. Vegna þess að
15 Paul Babiak og Robert D. Hare, Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work, New York:
HarperCollins, 2006.
16 Abigail A. Marsh og Elise M. Cardinale, „Psychopathy and Fear. Specific Impairments
in Judging Behaviors That Frighten Others“, Emotion 12/2012 bls. 892–898.