Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 108
„ÞÚ ER ENN ÞÁ LIFANDI, ÞÚ ERT ENN EkkI EINN“
113
Eigum við að fara? Hvernig
kúla lest eitur
dauði alltént, veldu!39
Í huganum hef ég oft horft ofan í byssuhlaup, staðið á lestarteinum og hugsað
með hlýju til blásýru, en áður en mér tekst að falla ofan í þessa gryfju er líkt og
Osip grípi í taumana. Út úr brjóstkassa hans, í hjartastað, streyma glitrandi orð
sem hefja sig strax til flugs og stefna í áttina að mér. Horfi ég dolfallinn á sjónar-
spilið enda dansa orðin af mikilli gleði um loftið. Hluti þeirra stöðvast loks í tor-
ræðri röð miðja vegu á milli okkar líkt og þau séu að bíða þess að mér gefist færi
á að lesa fyrstu orðaröðina, sem svífur nú fyrir framan mig:
Ég er kirsuberið sem sveiflast í sporvagnsól
illra tíma. Hvað er ég að gera lifandi?40
Þegar Osip ritaði þessar línur, sem eru hluti af ónefndu ljóði frá marsmánuði
ársins 1931, var verulega farið að þrengjast að honum og gat hann hvenær sem
er átt von á handtöku.41 Ekki gefst mér tími til þess að hugleiða ljóðabrotið nánar
því það hverfur skyndilega þegar næsta orðaröðin birtist andspænis mér:
Ég hræðist ekki vitneskjuna um að stormurinn haldi áfram og áfram
…
en jafnvel þegar ég get ekki andað vil ég lifa þangað til ég dey.42
Setningarnar, sem eru hluti annars ónefnds ljóðs frá sama ári, snerta mig djúpt
því Osip virðist hvetja mig til þess að fara ekki að ráðum Marínu. Hann virðist
þess í stað brýna mig til þess að berjast gegn erfiðleikunum og dauðahvötinni
þar til náttúran tekur mig til sín. Sannfærist ég um boðskapinn þegar síðustu
línurnar svífa glitrandi skammt frá andlitinu:
Þú er enn þá lifandi, þú ert enn ekki einn–
hún er enn við hlið þér, með sínar tómu hendur,
og gleði berst ykkur báðum yfir víðáttur slétta
gegnum mistur og hungur og fljúgandi snjó.
…
39 Marina Tsvetaeva, „Poem of the End“, bls. 100.
40 Osip Mandelstam, The Selected Poems, bls. 61.
41 Osip Mandelstam, „Fourth Prose“, The Noise of Time. Selected Prose, Clarence Brown þýddi
og ritaði inngang, Evanston: Northwestern University Press, 2002, bls. 175–189. Sjá
einnig Clarence Brown, „A Note on Fourth Prose and Journey to Armenia“, sama heimild,
bls. 165–173, einkum, bls. 165–168.
42 Osip Mandelstam, The Selected Poems, bls. 61.