Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 9
VERA KnÚTSDóTTIR
14
ímyndarsköpunarinnar og annmarka hugmynda um hina miðlægu karlhetju;
ekki síst í ljósi þess að karlmönnum, bankamönnum og útrásarvíkingum, var
fyrst og fremst kennt um orsakir þess og að hafa siglt þjóðarskútunni í strand.
Því er sérlega áhugavert að leiða hugann að því hvernig kvenhöfundar á Íslandi
fjalla um atburðina og greina þá, en í fræðilegri umræðu um hrunbókmenntir
hefur hallað á það sjónarhorn.23 Í báðum skáldsögunum sem hér eru til greining-
ar má greina átök um sjálfsmynd frá sjónarhorni kyngervis sem afhjúpar stoðir
feðraveldis og valdamisræmi milli sögupersóna af ólíkum kynjum.
Hér er einnig nauðsynlegt að velta fyrir sér þeim draugagangi sem birtist
í skáldsögum frá tímabilinu og finna má í báðum verkum, með ólíkum hætti
þó, sem hér liggja til greiningar. Í upphafi kaflans minntist ég á hvernig hið
ókennilega birtist sem þvermenningarlegt fagufræðilegt andsvar við hinu alþjóð-
lega fjármálahruni sem skók vestræna heimsbyggð árið 2008, og hvernig hefur
verið gert grein fyrir því af fræðimönnum beggja vegna Atlantshafs. En í hverju
felst þessi fagurfræði og hvernig birtist hún í hrunfrásögnum? Sigmund Freud
skilgreinir hugtakið „das unheimlich“ sem fagurfræði í frásagnagerð sem vekur
ugg með lesendum og skapar ótta.24 Á íslensku var hugtakið upphaflega þýtt sem
hið óhugnanlega af Sigurjóni Björnssyni sem þýtt hefur helstu fræðigreinar Freuds
yfir á íslensku. Í dag virðist hið ókennilega hafa fest sig í sessi í íslenskri fræðaum-
ræðu en hinu ankannalega hefur einnig verið varpað fram og hefur viss hljóðræn
líkindi við enska þýðingu orðsins „the uncanny.“25 Enska orðið nær aftur á móti
ekki að endurspegla þau mikilvægu tengsl sem þýska orðið hefur við hugmyndina
23 flestar greinar og bækur sem ég fundið, fjalla aðeins um íslenskar hrunbókmenntir frá
sjónarhorni karlhöfunda nema grein Gunnþórunnar um verk Álfrúnar Gunnlaugsdótt-
ur, Siglingin um Síkin: „Precarious States of Being“ í Iceland-Ireland: Memory, literature, culture
on the Atlantic Periphery. Þessi grein er liður í stærra verkefni þar sem íslenska bankahrunið
er skoðað út frá sjónarhóli kvenhöfunda.
24 Sigmund freud, „Hið óhugnanlega“, Listir og listamenn, Sigurjón Björnsson þýddi og
ritaði inngang, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2004, bls. 191–238. Sigmund
Freud, „The Uncanny“, (1919), þýðandi Alix Strachey í Writings on Art and Literature, Stan-
ford: Stanford University Press, 1997, bls. 193–233.
25 Sama heimild. Í greininni „Kóralína og mæður hennar. Um vandkvæði þess að skipta um
móður í Kóralínu eftir neil Gaiman,“ sem birtist í Ritinu árið 2021, skrifar Dagný Krist-
jánsdóttirr til dæmis að „smám saman hefur önnur þýðing [en þýðing Sigurjóns „hið
óhugnanlega“] á hugtakinu rutt sér til rúms meðal bókmenntafræðinga eða hið ókennilega
og það er notað hér.“ Ritið 1/2021, bls. 81–102, hér bls. 91 í neðnamálsgrein. Aðspurð
sagði Dagný hafa stuðst við þýðingu Guðna Elíssonar á hugtakinu. Þá minnist ég þess
að hafa heyrt Ármann Jakobsson velta því upp hvort „hið ankannalega“ sé þýðing sem
hæfi hugtakinu vel, í fyrirlestri á Hugvísindaþingi fyrir þó nokkrum árum síðan. Ármann
kannaðist við það en tók fram að vangavelturnar væri ekki að finna á prenti.