Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 104
„ÞÚ ER ENN ÞÁ LIFANDI, ÞÚ ERT ENN EkkI EINN“
109
fyrri hluti setningarinnar lýsa eiginkonunni á einstakan hátt á meðan líf mitt
kristallast í seinni hlutanum.
Grátbólginn fyllist ég miklu vonleysi þegar ég hugsa um grimm örlög mín
og þá gríðarlegu erfiðleika sem ég hef lagt á eiginkonuna og börnin. Mitt í
skelfingunni flögrar Slyvia Plath (1932–1963) inn í sýndarveröldina. Hún er í
hópi þeirra rithöfunda og skálda sem hafa markað djúp spor í lífi mitt. Það sem
gerir Plath svona sérstaka er að hún gekk í gegnum hliðstæðar þjáningar og
ég hef upplifað, eins og lesa má í sjálfsævisögulegu skáldsögunni Glerhjálmurinn.
Við eigum það einnig sameiginlegt að hafa hræðst raflækningar eins og heitan
eldinn, meðferðina sem dró okkur tímabundið út úr helvíti þunglyndisins. Hér
er á ferðinni sérstök þverstæða, en ástæður hræðslu okkar voru ekki þær sömu.
Plath lýsir á áhrifamikinn hátt hvernig var að upplifa meðferðina án svæfingar,27
sem hlýtur að vera skelfileg reynsla. Þegar ég horfi á eiginkonuna og Snúlla og
leiði hugann að veru minni á deild A2 á Borgarspítalanum í upphafi tíunda
áratugarins og raflækningunum sem þar voru í boði fyllist ég einnig skelfingu.
Ferlið hófst fyrir allar aldir. Þá kom hjúkrunarfræðingur inn í herbergið og
sprautaði vöðvaslakandi lyfi í rasskinnina. Eftir það lá ég oft milli svefns og vöku
þar til morgunvaktin hóf störf. Þá var ég fluttur yfir á lítinn hreyfanlegan bekk,
sem ýtt var út úr herberginu og fram á gang. Skröltið í hjólunum þótti mér
óþægilegt en loftljósin drógu athyglina frá hávaðanum. Frá ganginum lá leiðin
yfir í samkomusalinn og enn glamraði í hjólunum en nú blasti við mér ný gerð
ljósabúnaðar. Þá fór hjartað að slá örar, enda styttist í hurðina skelfilegu, en
handan hennar beið óttinn, illskan, og sú álma Borgarspítalans, sem þá var í
byggingu. Loks rann bekkurinn inn um vítisdyrnar þar sem hvorki var hátt til
lofts né vítt til veggja. Í loftinu blöstu við rakar pípur og eitt sinn féll dropi á nefið
mitt. Glamrandi hjólin báru mig loks inn í rökkvaðan biðsal, innan um eldri
konur sem lágu á sambærilegum bekkjum og mátti heyra sumar þeirra kjökra.
Þegar snöktið barst inn um hlustirnar velti ég því fyrir mér hvort þær upplifðu
sama ótta og ég.
Þegar röðin kom loks að mér var bekknum ýtt inn í vel upplýst herbergi. Þar
stóð rafmagnsvélin og við hlið hennar biðu læknar. Einn þeirra gekk að mér og
dældi svefnlyfinu í æð. Í stað friðsællar svæfingar greip skelfileg köfnunartilfinning
skyndilega vitundina og gerði ég fastlega ráð fyrir að deyja. Þetta var endurtekið
nokkrum sinnum í viku yfir nokkurra vikna tímabil, en alltaf fór ég aftur í með-
ferðina, enda treysti ég læknunum fullkomlega. Ég get hins vegar ekki neitað því
að fátt er verra en að þurfa að upplifa endurtekna köfnunartilfinningu og ótta
27 Sylvia Plath, Glerhjálmurinn, Fríða Björk Ingvarsdóttir þýddi, Reykjavík: Salka, 2003, bls.
236–237, 258 og 263–272.