Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 151
PAUl BlOOM
156
né fjölskylda, en hafið í huga að fullorðna fólkið í rannsóknunum er í raun og
veru ekki svo ókunnugt. Áður en hin dæmigerða rannsókn byrjar, þá á barnið
(ásamt móður sinni eða föður) í samskiptum við fullorðinn rannsakandann. Þetta
er hluti af „upphitunartíma“ þar sem þau eiga í vinsamlegum, gagnkvæmum
athöfnum líkt og að rúlla bolta fram og til baka. Þetta gerir gæfumuninn. Sál-
fræðingarnir Rodolfo Cortez Barragan og Carol Dweck hafa komist að því að
ef þú átt ekki í slíkum gagnkvæmum samskiptum – heldur afmarkar þau við
vingjarnlega kveðju frá fullorðna einstaklingnum og hlýlegt þakklæti fyrir þátt-
tökuna– þá lækkar hjálpsemin af hálfu barnsins um helming.57 Ég er viss um að
ef það væru engin jákvæð samskipti áður – ef fullorðna manneskjan væri raun-
verulega ókunnug á því augnabliki sem hana vantaði hjálp – þá myndi barnið
sýna litla eða enga ósjálfráða góðvild.
Hingað til höfum við kannað viðbrögð fólks og hegðun þess gagnvart öðrum.
En siðferðisverur leggja líka dóm á eigin gjörðir. Við erum stolt af okkar góðu
verkum og fyllumst sektar yfir þeim slæmu; og þessar siðferðilegu tilfinningar
hjálpa okkur að ákveða hvað við ættum og ættum ekki að gera í framtíðinni. Í
tilviki fullorðinna hafa sálfræðingar að minnsta kosti uppgötvað náið samband á
milli þess að dæma aðra og dæma okkur sjálf.58 Ef þú hefur tilhneigingu til þess
að hafa samúð með öðrum þá ertu einnig líklegur til þess að fá sektarkennd fyrir
það að skaða hann eða hana. Ef þú ert ein af þeim manneskjum sem hafa sterka
samlíðunarkennd þá ertu líklegri til þess að hafa ríkari sektartilhneigingu.
Erfitt er að rannsaka sjálfsmat barna og við vitum lítið um þróun þess. Það
er nægilega auðvelt að búa til aðstæður þar sem við sýnum börnum góðan ná-
unga og vondan náunga og rannsökum hvernig þau bregðast við þessum per-
sónum. Það er erfiðara (þó kannski ekki ómögulegt) að skapa aðstæður þar sem
við getum fengið börnin sjálf til að hegða sér á ólíkan hátt og skoða viðbrögðin
við þeirra eigin góðmennsku og slæmri hegðun.
Þrátt fyrir það getum við snemma séð merki um að sjálfsmat eigi sér stað.
Börn og smábörn sýna oft merki um að þau séu stolt líkt og sjá má af sögunni af
fögnuði Williams þegar hann gaf litlu systur sinni piparkökuna. Og sektarkennd
má einnig finna. Börn á fyrsta æviári sýna merki um vanlíðan þegar þau meiða
57 Rodolfo Cortez Barragan og Carol Dweck, „Young Children’s „Helpfulness“. How Nat-
ural Is It?“, óbirt handrit, Stanford University, 2013.
58 Roy F. Baumeister, Arlene M. Stillwell og Todd F. Heatherton, „Guilt. An Interpersonal
Approach“, Psychological Bulletin 115/1994, bls. 243–267. Sjá frekari umræðu hjá Steven
Pinker, Better Angels.