Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Side 75
MARTEINN KNARAN ÓMARSSON
80
lægt vald.34 Það er þó kannski ólíkt hvernig þessum gildum hefur verið miðlað í
gegnum tíðina hér á landi en eðli málsins samkvæmt er fjölmiðlamenningin mun
fábrotnari hér en til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem hæsta tíðni
raðmorða er og talsvert verið gert úr afbrotunum í slúðurblöðum og skáldskap.
Fáir rótgrónir og sumpart íhaldssamir fjölmiðlar stýra að miklu leyti orðræðunni
og hin svokallaða „gula pressa“ sem gerir sér jafnan mat úr skandölum og slúðri
um frægt fólk og beitir til þess dramatísku og tilfinningalegu orðfæri í stað hlut-
lausari umfjöllunar er lítt áberandi.35 Frægð í litlu landi felur líka ef til vill ekki
í sér eins mikla virðisaukningu eða fjárhagslegan ávinning og í fyrrnefndum
löndum. Um leið er bandarísk dægurmenning þó mjög áhrifamikil á Íslandi eins
og annars staðar og ýmis viðhorf landsmanna mótuð af henni, ekki síst varð-
andi raðmorðingja sem stundum eru sagðir „eins bandarískir og eplapæ“.36 Þá
sækja líka æ fleiri fréttir, fróðleik og afþreyingu til erlendra miðla, einkum þeirra
bandarísku, og ljóst að hver og einn byggir sjálfsmynd sína úr ólíkasta efnivið í al-
þjóðavæddum samtímanum. Það menningarlega samhengi sem Haggerty ræðir
um og elur af sér raðmorðingja er Íslendingum því vel aðgengilegt nú á dögum
um leið og hin félagslegu skilyrði eru sífellt að breytast í landinu.
Líkt og Katrín Jakobsdóttir, núverandi forsætisráðherra og íslenskufræðingur,
kemur inn á í bók sinni Glæpurinn sem ekki fannst. Saga og þróun íslenskra glæpasagna
(2001) var hinn smái og um margt einsleiti félagslegi veruleiki á Íslandi lengi
ákveðin fyrirstaða fyrir bókmenntir um glæpi. Ekki síst eiga orð hennar vel við
glæpasögur sem er sú bókmenntagrein ásamt hrollvekjunni þar sem raðmorð-
ingjar koma helst fyrir. Lesendur hváðu gjarnan þegar íslenska glæpasagan barst
í tal skrifar Katrín og þótti hún beinlínis óeðlileg bókmennategund á Íslandi.
Hér vantaði félagslega samhengið og þá umgjörð sem greinin kallaði eftir, svo
sem skuggahverfi stórborga eða ensk óðalssetur.37 Í inngangi sínum vitnar Katrín
í Dauðarósir (1998) eftir Arnald Indriðason, eins af frumkvöðlum íslenskra glæpa-
sagna, þar sem þetta er einmitt rætt í stuttri senu og spurt hvers vegna Íslending-
ar skrifi ekki spennubókmenntir, þeir skrifi jú allar aðrar tegundir sagna. Komast
persónurnar að þeirri niðurstöðu að glæpaflóran sé ekki nógu spennandi hér á
34 Sjá til dæmis Julie B. Wiest, Creating Cultural Monsters. Serial Murder in America, bls. 3; og Jane
Caputi, The Age of Sex Crime, London: The Woman´s Press, 1988, bls. 4.
35 Guðni Elísson bókmenntafræðingur hefur að vísu fjallað um orðræðuna í DV í tengslum
við gotneska heimsýn. Sjá Guðni Elísson, „Dauðinn á forsíðunni. DV og gotnesk heim-
sýn“, Skírnir 1/2006, bls. 15–132.
36 David Schmid, Natural Born Celebrities. Serial Killers in American Culture, bls. 25. Tilvitnun
hljómar upprunalega á þessa leið: „Serial killers are as American as apple pie.“
37 Katrín Jakobsdóttir, Glæpurinn sem ekki fannst. Saga og þróun íslenskra glæpasagna, Reykjavík:
Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2001, bls. 9.