Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 159
HJAlTI HuGASOn
164
mætti allt eins ræða um „hið andlega“ (e. spiritual) í þessu sambandi.22 Í þessari
grein er þó þörf fyrir frekari afmörkun á því hvað sé trúarleg spurning, fyrirbæri
og jafnvel ljóð.
Íslensk orðabókarmerking lýsingarorðsins trúarleg/-ur/-t nær yfir hvað eina
sem varðar trú. Merkingarsvið orðsins verður því ekki afmörkuð án þess að vikið
sé að hugtakinu trú sem er alls ekki óumdeilt né auðvelt skilgreiningar.23 Á þetta
ekki síst við um skilgreiningar á íslensku þar sem orðið er, svipað og raunar
gerist í fleiri tungumálum, í senn notað yfir trúarbrögð (e. religion) og einstaklings-
bundna trú (e. belief, faith).24 Hér verður ekki litið svo á að spurning, viðhorf
eða þess vegna ljóð verði trúarlegt við það eitt að í því sé tekist á við lífsgátuna
í víðum skilningi. Þess í stað verður miðað við að þar sé fengist við eitt eða
fleiri af eftirfarandi þremur lykilfyrirbærum: Manninn eða mannlega tilveru, þar
á meðal dauðann; heiminn, eðli hans og upphaf og loks „guð“.25 Þetta hafa lengst
af verið helstu viðfangsefni trúarbragða og þau hafa til skamms tíma í ríkum
mæli mótað afstöðu alls þorra fólks í þessum efnum. Nú er leitað svara við þeim
spurningum sem fyrirbærin þrjú vekja út frá fleiri sjónarmiðum. Á það ekki síst
við í hinum vestræna heimi þar sem algengt er að spurningunum sé svarað út
frá veraldlegum lífsskoðunum. Þrátt fyrir það virðist ekki úr vegi að líta á spurn-
ingar á borð við þær sem hér um ræðir sem trúarlegar vegna stöðu þeirra innan
margra trúarbragða enn í dag og hinnar sögulegu tengingar við þau. Þá má
benda á að líklega verður þeim seint fullsvarað með hjálp vísindalegra aðferða
og viðmiðana einna heldur verði einnig að kveða upp margs konar gildisdóma
og byggja á ýmiss konar persónulegum viðhorfum til að svörin fullnægi þeim
sem á annað borð spyrja þeirra af innri þörf. Þegar slík þörf er til staðar er vel-
ferð spyrjandans, tilfinning viðkomandi fyrir tilgangi, öryggi og lífsfyllingu, oft
og tíðum undir því komin að tekist sé á við spurningarnar af fullum heilindum
þótt endanleg svör séu tæpast innan seilingar.26 Þegar sú er raunin má líta svo á
að spurningarnar séu ekki síður tilvistarlegar (e. existential).
22 Owe Wikström, Om heligheten. Helighetens envisa vägran att försvinna. Religionspsykologiska per-
spektiv, Stokkhólmi: natur och kultur, 1997, bls. 103–108.
23 Sjá Sólveig Anna Bóasdóttir, „Trú. umfjöllun um fimm mismunandi trúarhugtök“, Trú
og þjóðfélag. Afmælisrit til heiðurs Pétri Péturssyni prófessor sjötugum, ritstjórar Bjarni Randver
Sigurvinsson, Egill Benedikt Hreinsson og Jónas Elíasson, Reykjavík: Háskólaútgáfan,
2021, bls. 285–297.
24 Vissulega skarast merkingarsvið ensku orðanna religion og einkum faith í almennri um-
ræðu. Í fræðilegu samhengi er greint skýrar á milli.
25 Hér er ekki átt við persónulegan guð, til dæmis Guð kristinna manna, heldur guðdóminn
í víðasta skilningi.
26 Sjá Sólveig Anna Bóasdóttir, „Trú“, bls. 286–287.