Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 37
SuNNA DÍS JeNSDóTTIR
42
Nonni krefja ömmu hans svara og í ljós kemur að innra með honum býr illska
sem hann ræður ekki við og hefur þegar kostað móður hans lífið. Að þessu sinni
eru allir íbúar Húmdala í mikilli hættu og hin ofsótta Brynja neyðist til að sýna
af sér mikið hugrekki til þess að hún og vinir hennar geti ráðið niðurlögum
illskunnar sem á þau sækir.
Í gotneskum sögum má gjarnan finna dæmigerðar umhverfisaðstæður, tákn
og minni, sem vekja samtímis upp ótta lesandans og kunnugleika. Í umfjöllun
bókmenntafræðingsins Úlfhildar Dagsdóttur um skáldsögu Jökuls bendir hún
á að textatengsl og vísanir í aðrar hrollvekjur séu höfuðeinkenni bókmennta-
greinarinnar og ber hún Börnin í Húmdölum saman við ýmsar þekktar hryllings-
frásagnir. Hún minnist sérstaklega á höfundarverk metsöluhöfundarins Stephen
King sem hefur óspart gert börn að aðalpersónum í sögum sínum í þeim tilgangi
að auka á óhugnaðinn.14 Úlfhildur er með þessu ekki að gagnrýna skrif Jökuls
eða gefa í skyn ófrumleika á nokkurn hátt heldur benda á að þau sverji sig í ætt
við hrollvekjuhefðina „sem þrífst á „sjálfsáti“ ef svo má segja.“15
Hið gotneska er löngu orðið að orðræðu í vestrænni menningu nútímans og
mikilvægt er að hafa í huga að frásagnarfræðilegir þættir einir og sér nægja ekki
til að skilgreina slíka skáldskaparlist.16 Líkt og Guðni bendir á er „gotneska […]
fyrst og fremst miðlunarform ofbeldis og ótta“17 og að baki henni býr ákveð-
in heimssýn, hugsun og skilningur. Hlutverk myndmálsins í hryllingssögum er
að afhjúpa innri spennu frásagnarinnar þar sem bæling og undanbrögð eru í
14 Í viðtali árið 2004 er Jökull inntur eftir svörum um meint áhrif hrollvekjuhöfundarins
Stephen Kings á skáldsöguna þar sem hann segist ekki ætla sér að feta í fótspor hans.
Afstaða hans gæti verið tilkomin vegna þess að skáldskapur af þessu tagi hefur í gegn-
um tíðina mætt fordómum og ekki verið tekinn eins alvarlega og aðrar raunsærri bók-
menntagreinar. „Verður ekki íslenskur Stephen King“, Fréttablaðið, 14. nóvember 2004.
Í umfjöllun Úlfhildar um skáldsögu Jökuls segir til að mynda: „Tegundabókmenntir
svokallaðar eða bókmenntagreinar („genre“) hafa aldrei þótt fínn pappír, ekki erlendis
og allsekki hérlendis.“ Úlfhildur Dagsdóttir, „Börnin í Húmdölum“, Bókmenntaborgin,
nóvember 2004, sótt 28. febrúar 2023 af https://bokmenntaborgin.is/bokmennta-
vefur/bokmenntaumfjollun/bornin-i-humdolum-0. Samfélagsleg rýni virðist Jökli þó
hugleikin líkt og sjá má á seinni skáldsögu hans, Skuldadagar (2006). Í viðtali eftir útgáfu
hennar segir Jökull að hann vilji losna undan því að teljast til hrollvekju–fantasíuhöfunda
en lýsing hans á seinna verkinu gæti allt eins átt við þá fyrri: „Ég vildi skrifa bók sem
fjallar um hugarástandið í samfélaginu á Íslandi í dag.“ Hávar Sigurjónsson, „Samfélag
á kafi í neyslu“, Morgunblaðið, 18. nóvember 2006.
15 Úlfhildur Dagsdóttir, „Börnin í Húmdölum“. Sem dæmi um líkindi og tengsl við skáld-
sögu Jökuls nefnir Úlfhildur höfundinn Ramsey Campbell, skáldsöguna The Fury eftir
John Farris og myndasöguna Domu eftir Katsuhiro Otomo.
16 Guðni elísson, „Dauðinn á forsíðunni“, bls. 114.
17 Sama rit, bls. 115.