Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.12.2010, Síða 79
Jacques Derrida
Um turna Babel1
Babel, í fyrsta lagi eiginnafn; gott og vel. En þegar við segjum Babel nú
á dögum, er okkur þá ljóst hvað við nefnum? Hvern við nefnum? Athug-
um afkomu texta, arfleifðina sem frásögnin eða goðsagan um Babelturn-
inn er: hann er ekki eins og hver annar. Um leið og hann tjáir að minnsta
kosti ófullnægjandi samsvörun eins tungumáls við annað, eins þekking-
arsviðs við annað, málsins við sjálft sig og merkingu, tjáir hann einnig
nauðsyn myndmáls, mýtu, óeiginlegrar málnotkunar, orðaleiks sem og
ófullnægjandi þýðingar til þess að bæta upp það sem margbreytnin fyrir-
munar okkur. Þannig má segja að hann sé mýtan um uppruna mýtunnar,
myndhvörf myndhvarfanna, frásögnin um frásögnina, þýðingin á
þýðingunni. Hann er ekki eina byggingin sem holast á þennan hátt en
hann gerir það með sínu lagi (það sjálft því sem nœst óþýðanlegt, eins og
sérnafn) og tungutak þess þyrfti að varðveita.
„Babelturninn“ er ekki einasta vitnisburður um óafturkallanlega
margbreymi mngumálanna, hann vitnar einnig um ófullgert verk,
ómöguleika þess að ljúka við, algera, fylla, reka smiðshöggið á eitthvað
sem ætti skylt við uppbyggingu, byggingargerð, skipulag og arkitektón-
1 Greinin heitir á frummálinu „Des tours de Babel“ og birtist fyrst árið 1985 í rit-
gerðasafninu L’Art des confins: Mélanges ojferts d Maurice de Gandillac, ritstj. Jean
Fran^ois Lyotard og Annie Cazenave, Paris: Presses Universitaires de France. Hún
var síðar endurprentuð, ögn breytt í greinasafni Derridas sjálfs, Psyche: Inventions de
l’autre, Paris: Galilée 1987, og er sá texti lagður til grundvallar íslensku þýðingunni.
Allar tilvitnanir í ritgerð Walters Benjamin eru þýddar úr þýsku („Die Aufgabe des
Ubersetzers", Illuminationen. Ausgewdhlte Schriften. Frankfurt am Main: Suhrkamp,
1977) en franska þýðingin höfð til hliðsjónar. Biblíutextarnir eru þýddir úr frönsku,
með hliðsjón af íslenskum biblíuþýðingum.
77