Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.12.2010, Page 182
KRISTJAN ARNASON
Hugsanlegt er að túlka þetta sem svo að valið milli orða ráðist af hinu
daglega umhverfi hvað sem hugsjónum líður.
Og þá er það svo, jafnvel þótt samstaða ríki um hina „opinberu“ mál-
stefnu og flestir séu á því að búa eigi til íslensk orð þegar þeir eru spurð-
ir beint, að enska orðið e-mail eða meil nýtur forréttinda í málumhverf-
inu (eða vistkerfínu). A þennan hátt gemr staða málsins (val á máli í
tilteknu umhverfi, sbr. umdæmisvandann) haft áhrif á formþróunina,
hver svo sem hugmyndafræðin kann að vera.
5.3 Breyting á málræktarloftslagi?
Á bls. 111 var minnst á það að samanburður á svörum Norðurlandabúa
við spurningum um ensk áhrif á heimatungurnar þyki endurspegla opin-
bera málstefnu, þannig að svörin komi heim við „málræktarloftslagið“ í
hverju landi fyrir sig. Svo þetta sé sett í samhengi við það sem sagði í 5.1,
má segja að „málræktarloftslagið“, sem norrænir málfræðingar tala
stundum um (d. sprogklima, sprogngtsklimá), sé hluti af „málvistkerfínu“.
Hér er átt við þær skoðanir sem ríkjandi eru í samfélaginu og hjá „mál-
ræktaryfirvöldum“ (svo sem málnefndum og akademíum) um tungumál-
ið, form þess og hlutverk.31 Þótt við höfum ekki neinar eldri tölur að
miða við, sem segja til um stuðning við opinbera málstefnu hér á landi
og hvort orðið hefur breyting þar á, má a.m.k. segja að samkvæmt skoð-
anakönnuninni fylgi traustur meirihluti landsmanna hefðbundnum ís-
lenskum málræktargildum.
En fróðlegt er að huga hér að hinni menntuðu elítu, sem hvarvetna í
heiminum tekur virkan þátt í því að móta þetta málræktarandrúmsloft.
Hér hefur Island ekki verið undantekning. Segja má að alla tíð hafi hug-
sjónirnar sem felast í „varðveislu og eflingu“ íslenskrar tungu fyrst og
fremst verið bornar uppi af menntamönnum og listamönnum. Frægir
hugsjónamenn á þessu sviði eru Eggert Olafsson, Jónas Hallgrímsson og
Guðmundur Finnbogason. Eins og minnst var á (sbr. neðanmálsgrein
31 Ljóst er t.d. að í Noregi og Danmörku ríkja býsna ólík viðhorf um málstýringu.
Norðmenn hafa mun meiri tilhneigingu til miðstýringar, t.d. um það hvernig rita
eigi tökuorð sem berast inn í málið. Um það er rætt í stjórnskipuðum nefndum, og
síðan lagðar fram tillögur í gegnum menntamálaráðuneytið. Dönsk málræktaryfir-
völd hafa hins vegar tekið þá afstöðu að gera ekki tilraun til að setja fram reglur í
þessu sambandi, heldur leyfa samfélaginu (ekki síst þeim sem gefa út ritmál) að
stjórna því sjálft. Dönsk málnefnd á að „fylgjast með“, en ekki stýra þróun dönsk-
unnar. Að þessu leyti er málræktarandrúmsloftið í Noregi e.t.v. líkara því sem við
eigum að venjast, þótt auðvitað séu aðstæður mjög ólíkar að ýmsu öðru leyti.
180