Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.12.2010, Síða 379
AUSTUR, VESTUR OG ÓGNIN AF FJÖLMENNINGU
tiltekin grunngildi séu hafm yfír allan vafa (sama mætti þá segja um tiltek-
in siðaboð) og af þessum gildum (eða siðaboðum) megi leggja grunn að
siðfræðilegu kerfi sem ekki verði hafnað með neinum skynsamlegum rök-
um. Onnur leið er að líta svo á að siðferðileg hugtök séu eitt - innihald
þeirra annað. Þannig geti einstaklingar með ólíkan menningarlegan bak-
grunn verið sammála um grunngildi, þótt ólíkur bakgrunnur þeirra valdi
því að gildin birtast með ólíkum og jafnvel andstæðum hætti.
I vestrænni heimspeki hefur skynsemishefðin krafíst þess að til sé rök-
ræn réttlæting siðaboða og gilda. Hinir ólíku skólar á Vesturlöndum hafa
hver um sig snúist um eina tegund réttlætingar. I þessum skilningi er hægt
að halda því fram að tiltekin boð eða gildi séu æðst - það er að segja óhlut-
bundin almenn boð á borð við boð nytjalögmálsins eða skilyrðislausa
sltylduboðið.12 Gallinn er sá að í fjölmenningarlegu samfélagi er það
einmitt nálgunin sem vekur spurningar. Það dugir ekki að réttlæta stjórn-
valdsaðgerðir með nytjarökum, að minnsta kosti ekki í öllum tilfellum,
eða ákvarðanir um læknismeðferð út frá einhlítum skylduboðum, svo
dæmi sé tekið. Raunar þarf ekki fjölmenningarsamfélag til að gera þetta
ókleift, en það er önnur saga.
Sé það viðurkennt að nálgunin, það hvemig fólk réttlætir og rökstyður
ákvarðanir sínar, er ólík og ræðst að hluta af menningarlegum bakgrunni,
er alls ekki úr vegi að hugsa um gildi á síðarnefnda veginn, það er að segja
- við deilum hugtökum en lítum svo á að birtingarmynd þeirra geti verið
mjög misjöfn. Þetta jafngildir því að segja eitthvað á þessa leið: Við erum
sammála um að réttlæti, jöfnuður og frelsi séu mikilvæg grunngildi, en við
erum ekki endilega á sama máli um hvað þessi hugtök merltja. En það
leiðir aðeins af sér að í þeim aðstæðum þar sem við þurfum að taka sam-
eiginlegar ákvarðanir, verðum við líka að ræða um merkingu slíkra hug-
taka.
En ef þetta er niðurstaðan hver er þá munurinn á því annarsvegar að
aðhyllast ólík grunngildi og að hafa ólíkan skilning á merkingu grunngilda
12 Nytjalögmálið er hluti af svokallaðri nytjastefnu sem kom fram í Bretlandi á 18.
og 19. öld. Þekktasti höfundur nytjastefnunnar erjohn StuartMill. Skilyrðislausa
skylduboðið er kjarninn í siðfræði þýska heimspekingsins Immanuels Kants, en
hann heldur því frain að skynsemislögmál skeri úr um rétt og rangt, ekki afleið-
ingar verka eins og nytjastefnumenn halda fram. Sjá John Stuart Mill, Nytja-
stejiian, þýðandi Gunnar Ragnarsson, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag,
1998. Immanuel Kant, Gnmdvöllur að Jhtmspeki siðlegrar breytni, þýðandi Guð-
mundur Heiðar Frímannsson, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003.
377