Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.12.2010, Page 383
AUSTUR, VESTUR OG ÓGNIN AF FJÖLMENNINGU
Hvort er vestrænt samfélag frekar veraldlegt eða kristið? I einum skiln-
ingi er þessari spurningu auðsvarað. Vestrænt samfélag er veraldlegt sam-
kvæmt skilgreiningu, þar sem hugtakið vestrænn vísar alls ekki til stað-
setningar heldur til samfellu við þá veraldlega mótuðu samfélagsgerð sem
orðið hefur til í Vestur-Evrópu og breiðst þaðan út um heiminn. I þessum
skilningi er vestrænt samfélag ekki nauðsynlega kristið. Japan er iðulega
talið í hópi vestrænna ríkja, en það er hvorki, né hefur það verið, kristið
samfélag. Tyrkland er sömuleiðis yfirleitt talið með vestrænum samfélög-
um þó að langflestir Tyrkir séu múslimar. I öðrum skilningi er svarið hins-
vegar flóknara. Trúarbrögð Vesturlanda hafa mótað samfélagsgerð þeirra í
margar aldir. Hugtök stjórnmálanna eru í mörgum tilfellum veraldlegar
þýðingar trúarlegra hugtaka. Orðræða stjórnmálanna hefur mótast sem
hliðstæða hinnar kristnu um vegferð mannsins í heimi þar sem mikilvæg-
ast af öllu sé að forðast blekkingar og tál, lýðskrum og loddaraskap. Hlut-
verk mannsins, hvort sem um er að ræða stjórnmálamanninn, vísinda-
manninn eða bara manninn sem slíkan, er að leita sannleikans en því hefur
einmitt verið haldið fram að meginþræði siðfræði og stjórnmálaheimspeki
megi draga saman í kenningu um „sannmæli".16 Þróun siðfræðinnar á síð-
ari árum hefur falið í sér enn frekara þýðingarstarf úr kristinni hugtaka-
flóru. Þannig hefur dygðarhugtakið verið endurreist í heimspekinni.
Heimspekingar leggja að vísu áherslu á hliðstæðu þess í grískri heimspeki
og reyna að slíta það frá kristilegum dygðahugmyndum.17 Staðreyndin er
þó sú að um margra alda skeið hefur dygðin, rétt eins og syndin, verið
kyrfilega heimilisföst í hugtakaheimi kristninnar. Og sama má segja um
flest önnur meginhugtök daglegrar orðræðu stjórnmála, valda, stýringar
og siðlegrar breytni. Oft er litið svo á að hin yfirlýsta veraldlega sýn heim-
spekinnar dugi til að höggva á öll nauðsynleg tengsl vestrænna þjóðfélags-
hátta og kristni. En margra alda veldi kristinnar kirkju á Vesturlöndum
sem í raun hefur aldrei verið hnekkt með neinum afgerandi eða formleg-
um hætti, gerir þá skoðun í það minnsta tortryggilega.
Það má því halda því fram með talsverðum rökum að þrátt fyrir yfir-
lýsta og margtuggna veraldarhyggju (e. secularism) vestrænna stjórnmála
og heimspeki, þá eigi vestrænt samfélag og hugsunarháttur ekki aðeins
16 Þorsteinn Gylfason „Hvað er rétdæti}“,Rétt<eti og ranglæti, Reykjavík: Heims-
kringla, 1998, bls. 25-81, sjá bls. 74-75.
17 Það er óþarft að vísa til sérstakra verka um þetta, en benda má á höfunda á borð
við Elisabeth Anscombe, Alasdair Macintyre og Rosalind Hursthouse.
38l